Hvalfjarðardagar verða um næstu helgi

Hvalfjarðardagar verða haldnir um komandi helgi, dagana 26.-28. ágúst. Er þetta í þriðja sinn sem hátíðin er haldin yfir helgi en áður höfðu ferðaþjónustuaðilar í Hvalfjarðarsveit tekið sig saman og haldið Hvalfjarðardag. Að sögn Guðnýjar Kristínar Guðnadóttur umsjónaraðila Hvalfjarðardaga er dagskráin í ár stútfull af flottum og fjölbreyttum viðburðum um alla sveit. „Hátíðin hefst á föstudaginn með fjölskylduhátíð í Heiðarskóla frá klukkan 17-20 í tilefni tíu ára afmælis Hvalfjarðarsveitar, en sá viðburður kemur í stað sveitagrillsins sem hefur venjulega verið í Fannahlíð. Boðið verður upp á grillaðar pylsur, hoppukastala og tónlistaratriði og fyrir þá sem vilja skella sér í sund verður sundlaugin í Heiðarborg opin,“ segir Guðný í samtali við Skessuhorn. Á föstudeginum verður opnað fyrir ljósmyndakeppni sem stendur alla helgina. „Það geta allir tekið þátt. Það eina sem þarf að gera er að taka mynd, búa sér til aðgang inni á www.hvalfjardagdagar.is og skila myndinni þangað inn. Keppninni lýkur um miðnætti á sunnudagskvöldinu og strax í næstu viku velur dómnefnd sigurvegara sem fær gjafabréf frá SS og Hótel Glym,“ segir Guðný.

 

Sveitamarkaður á Þórisstöðum

Á laugardeginum verður dagskráin ekki af verri endanum en þá verður byrjað á Helgusundi klukkan 11 í boði Sjóbaðsfélags Akraness. „Okkur þykir það mjög ánægjulegt að þetta ætli að verða fastur liður á hátíðinni hjá okkur,“ segir Guðný. „Sveitamarkaðurinn á Þórisstöðum verður opinn frá klukkan 12-17 á laugardeginum og verður hann með stærra móti í ár. Þá verður trúbador á svæðinu og hestamannafélagið Dreyri teymir undir börnum, auk þess sem mæðgurnar Sigurlaug og Erla verða með veitingar fyrir gesti og gangandi á kaffihúsinu Kaffi Koti,“ bætir Guðný við. Opið verður á Bjarteyjarsandi bæði laugardag og sunnudag og á laugardeginum ætla bændur þar að heilgrilla lamb sem gestir geta keypt sér af. Einnig getur fólk bókað sér kajakferðir í fjörunni við Bjarteyjarsand. „Á Hvítanesi verður einnig opið en þar er nýtt nautaeldisfjós sem fólk má koma og skoða og kaupa nautakjöt á meðan birgðir endast. Anna G. Torfadóttir listakona verður einnig með myndlistarsýningu þar á sama tíma,“ segir Guðný og bætir því við að lifandi tónlist verði í Skessubrunni á laugardagskvöldinu.

 

Stofutónleikar

“Á sunnudaginn byrjum við daginn á Hvalfjarðahlaupinu þar sem boðið verður upp á þrjár vegalengdir, 3 km, 7 km og 14 km, með tímatöku. Einnig verður opið í Vatnaskógi þar sem farið verður í bátsferðir og skipulagðar gönguferðir. Þá verða hoppukastalar fyrir börnin og kaffisala,“ segir Guðný. Hernámssetrið verður opið alla helgina og á sunnudeginum verður kaffi og vaffla með rjóma innifalið í aðgangseyrinum. “Hvalfjarðardagar enda svo á stofutónleikum í Skipanesi en hún Ásta Marý Stefánsdóttir söngkona ætlar að halda tónleika,“ bætir Guðný við. Þá verður ýmislegt fleira í boði alla helgina; myndlistarsýningar, tónleikar og margt fleira. Dagskránna má finna inni á www.hvalfjardardagar.is og í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir