Landburður af makríl á bryggjunni í Ólafsvík. Ljósm. af.

Vertíðarstemning á makrílnum við Snæfellsnes

Mikið líf hefur skapast á höfnunum í Rifi og Ólafsvík síðustu daga vegna góðrar makrílveiði krókabáta. Pétur Bogason hafnarvörður sagði í samtali við Skessuhorn að veiðin væri ævintýraleg og að bátar hafi komið með allt að 27 tonn að landi yfir daginn. Meðal annars sé Brynja II SH að mokfiska. „Ætli þeir séu ekki komnir langleiðina í tvö hundruð tonn,“ sagði Pétur.

Síðastliðinn laugardag voru fáir bátar að veiðum vegna þess að vinnslur höfðu ekki undan að frysta allan þann afla sem barst á land. Því hefur þurft að biðja sjómenn að taka því rólega. En Álfur SH landaði þó 22 tonnum á laugardaginn en á sunnudag voru aðeins tveir bátar að veiðum og var aflinn 11 tonn og 8 tonn eftir nokkra tíma á miðunum. Pétur sagðist hafa spjallað við skipstjórann á Álfi SH. „Hann sagði við mig að makríltorfurnar væri allt að 20 faðma þykkar og öll þessi ár sem ég hef verið viðloðandi höfnina hef ég aldrei séð eins mikið af makríl hér. Þetta er svakalegt magn sem er hér á ferðinni núna,“ segir Pétur.

Nánar í Skessuhorni sem kemur út á morgun.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir