Veitur hyggjast lækka verð á neysluvatni og rafmagni

Á fyrri helmingi þessa árs skilaði rekstur Orkuveitu Reykjavíkur fimm milljarða króna hagnaði. Á sama tímabili á síðasta ári var 2,3 milljarða króna hagnaður. „Viðvarandi sparnaður í rekstri og hagstæð gengisþróun eiga þátt í bættri afkomu. Launakostnaður hefur hækkað í samræmi við nýlega kjarasamninga,“ segir í tilkynningu frá fyrirtækinu. Nettó vaxtaberandi skuldir OR lækkuðu um 9 milljarða króna á fyrri hluta ársins og hefur árshlutareikningur samstæðu OR verið samþykktur í stjórn. Um næstu áramót sjá Veitur, dótturfyrirtæki OR sem sér um veiturekstur samstæðunnar, fram á að lækka gjaldskrár fyrir rafmagnsdreifingu og kalt vatn. „Miklar fjárfestingar í fráveitum og hitaveitum munu ekki leyfa lækkun á þeim gjaldskrám. Veitur sjá um rafmagnsdreifingu frá miðjum Garðabæ í suðri til Akraness í norðri og þjóna um helmingi landsmanna. Vatnsveitur Veitna eru í fimm sveitarfélögum og þjóna um 40% landsmanna,“ segir í tilkynningunni.

Líkar þetta

Fleiri fréttir