Hilmar Sigvaldason vitavörður segir hér hollenskum ferðamanni frá mannlífinu á Akranesi. Á þessu ári stefnir í að á annan tug þúsunda ferðamanna komi í Akranesvita.

Akranesviti verður upplýsingamiðstöð og opinn allt árið

Bæjarráð Akraness ákvað á fundi í síðustu viku að Akranesviti skuli verða opinn allt árið, en um tilraunaverkefni verður að ræða. Vitinn mun verða opinn á veturna frá þriðjudegi til laugardags en á sumrin alla daga vikunnar. Hilmar Sigvaldason mun sem fyrr sjá um vitann. Á vef Akraneskaupstaðar segir að töluverð aukning hafi orðið í komu ferðamanna í Akranesvita undanfarið ár. Í lok júlí síðastliðins höfðu 7.800 manns lagt þangað leið sína en til samanburðar komu 9.600 allt árið í fyrra. Þrjú ferðaþjónustufyrirtæki hafa sýnt áhuga á að verða með fastar ferðir í Akranesvita veturinn 2016-2017.

Talsverð uppbygging og umhverfisbætur hafa átt sér stað á Breiðinni og er þeirri uppbyggingu ekki að fullu lokið. „Töluverðar framkvæmdir hafa staðið yfir á Breiðinni á undanförnum árum í samræmi við nýtt deiliskipulag og hönnun fyrirtækisins Landslags ehf. og er þeim ekki að fullu lokið. Sett verður upp salernishús í vetur og fleiri verkefni eru í farvatninu. Tillaga bæjarráðs gengur einnig út á að sameina upplýsingamiðlun sem hefur verið starfrækt í Landsbankahúsinu og í Akranesvita þannig að upplýsingagjöf til ferðamanna verði á einum stað, í vitanum. Hinsvegar verði settir upp standar með bæklingum á nokkrum stöðum í bænum auk þess sem svokallaðir „heitir reitir“ verða settir upp sem gerir fólki kleift að komast á netið endurgjaldslaust og sækja rafrænar upplýsingar um Akranes og þjónustuna sem er í boði,“ segir í frétt Akraneskaupstaðar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir