Ætla að skima fyrir forstigi mergæxlis hjá 40 ára og eldri

Í haust fer rannsóknarhópur undir forystu Sigurðar Yngvi Kristinssonar, prófessors í blóðsjúkdómum, af stað með stóra vísindarannsókn á landsvísu þar sem fyrirhugað er að skima fyrir forstigi mergæxlis hjá öllum sem fæddir eru 1975 og fyrr. Valið var eitt sveitarfélag á landinu til að prufukeyra verkefnið og varð Akranes fyrir valinu. Að sögn Ásdísar Rósu Þórðardóttur verkefnisstjóra er hér um stóra vísindarannsókn að ræða. „Það er óhætt að segja að rannsóknin sé einstök á heimsvísu en ætlunin að bjóða öllum Íslendingum 40 ára og eldri að taka þátt í henni. Að rannsókninni standa m.a. Háskóli Íslands, Krabbameinsfélag Íslands og Landlæknisembættið, en verndari verkefnisins er frú Vigdís Finnbogadóttir. Rannsóknin ber heitið Blóðskimun til bjargar/Þjóðarátak gegn mergæxlum.  Tilgangur hennar er að skima fyrir forstigi mergæxlis (multiple myeloma),“ segir Ásdís Rósa í samtali við Skessuhorn.

„Í nóvember munum við senda út kynningarpakka á alla landsmenn sem fæddir eru 1975 eða fyrr, sem inniheldur kynningarbækling, samþykkisyfirlýsingu og sérstakt lykilorð og bjóðum fólki að veita upplýst samþykki annað hvort rafrænt á vefsíðu rannsóknarinnar eða með því að senda undirritaða samþykkisyfirlýsingu gjaldfrjálst til okkar. Næst þegar viðkomandi fer, einhverra hluta vegna, í blóðprufu fáum við hluta af blóðsýninu til skimunar. Grundvöllur fyrir því að rannsóknin verði marktæk og verkefnið heppnist er að við fáum næga þátttöku. Við erum því að vanda okkur mikið við framsetningu og framkvæmd, og í því ljósi ætlum við að prufukeyra ferlið okkar í einu bæjarfélagi og varð Akranes fyrir valinu. Þar sem að fjölmiðlaátak og kynning á landsvísu bíður formlegrar byrjunar rannsóknarinnar (í nóvember) þá ætlum við að reyna að skapa umræðu á Akranesi með því að halda fyrirlestra á stærri vinnustöðum; t.d. sjúkrahúsinu og víðar. Því förum við þá leið að forkynna verkefnið í Skessuhorni, því það er mikilvægt fyrir framgang verkefnisins á landsvísu að þessi forkönnun meðal íbúa á Akranesi gangi vel,“ segir Ásdís Rósa. Hún bætir því við að ef allar tímaáætlanir ganga eftir, verði sendur út kynningarbæklingur og þátttökuupplýsingar á alla fædda 1975 eða fyrr sem búsettir eru á Akranesi, í byrjun viku 38, það er dagana 19.-23. september.

Líkar þetta

Fleiri fréttir