Rauða kross búðin í Borgarnesi brátt flutt í nýtt húsnæði

Um þessar mundir er unnið að því að flytja Rauða kross búðina í Borgarnesi í nýtt húsnæði. Nýja staðsetningin er þó skammt frá þeirri gömlu, eða í næsta húsi, þar sem TK hárgreiðslustofa var nú síðast í gamla pósthúsinu. Að sögn Kjartans Sigurjónssonar formanns Rauða krossins í Borgarnesi eru framkvæmdir enn á byrjunarstigi. „Hönnunarstofan Hvíta húsið kom hingað í byrjun mánaðarins og skoðaði nýja húsnæðið, en starfsmenn hennar sjá um alla hönnunina. Þeir tóku myndir og vinna nú að því að teikna upp búðina áður en framkvæmdir geta hafist.“

Rauði krossinn er að vinna að breytingum í fleiri verslunum þar sem á að setja upp nýjar innréttingar og gera verslanirnar fallegri. „Nýja húsnæðið er mikið bjartara og skemmtilegra en það gamla. Við vonum að með breyttu útliti muni verslunin höfða til fleiri, þá bæði að fleiri komi að versla og fleiri sjálfboðaliðar bætist í hópinn. Við erum með fullt af flottum sjálfboðaliðum sem vinna í búðinni en við getum alltaf bætt við,“ segir Kjartan og bætir því við að stefnt sé að opna búðina í nýju húsnæði í september, þó nákvæm dagsetning sé ekki komin.

Líkar þetta

Fleiri fréttir