Kirkjugarðurinn á Hvanneyri. Ljósm. Bjarni Guðmundsson.

Hvanneyrarkirkjugarður verður stækkaður

Umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefnd Borgarbyggðar samþykkti á fundi sínum nýverið að veita leyfi til stækkunar Hvanneyrarkirkjugarðs. Sóknarnefnd Hvanneyrarsóknar hafði sótt um framkvæmdaleyfi til 189 fermetra stækkunar kirkjugarðsins. Stækkunin samræmist aðalskipulag Borgarbyggðar fyrir Hvanneyri árin 2010-2022. Fyrir liggur undirritað samþykki íbúa Túngötu 26 fyrir stækkuninni. Að sögn Guðmundar Sigurðssonar, formanns sóknarnefndar Hvanneyrarsóknar, vonast sóknarnefnd til að framkvæmdir geti hafist nú í haust. „Við verðum í jarðvegsskiptum í haust og síðan verður farið í það að færa girðinguna og hlaða grjótgarðinn,“ segir Guðmundur og bætir því við að rætt hafi verið við Unnstein Elíasson hleðslumeistara um að taka það verk að sér. Garðurinn verður lengdur til austurs og segir Guðmundur að fyllt verði upp í brekkuna sem þar er. Hann vonast til að hægt verði að taka nýjan hluta kirkjugarðsins í notkun innan fárra ára. „Vonandi verður hægt að fylla upp í brekkuna næsta sumar og eftir það þarf jarðvegurinn aðeins að fá að jafna sig. Ég reikna því með að stækkunin verði tekið í notkun eftir tvö til þrjú ár.“ Hann bætir því við að ýmsir möguleikar séu til frekari stækkunar kirkjugarðsins, en ekki verði ráðist í þær á næstu áratugum. Aðal málið sé að hefja þennan áfanga stækkunarinnar og taka í notkun innan fárra ára, því líklegt sé að núverandi garður fyllist á næstu árum.

Hvað varðar peningahliðina kveðst Guðmundur ekki geta sagt til um með vissu hvað framkvæmdin komi til með að kosta. Hann segir hins vegar að það verði ekki mikið. „Endanleg kostnaðaráætlun liggur ekki fyrir, né hve mikið verður gert núna í haust og hve mikið þarf að gera seinna. En þetta er hvorki stór né dýr framkvæmd, aldrei dýrari en fimm milljónir króna,“ segir hann. „Kostnaðurinn skiptist síðan á milli sóknarnefndar, ríkis og sveitarfélags samkvæmt lögum,“ segir Guðmundur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Heba Bjarg er dúx FVA

Föstudaginn 28. maí voru 55 nemendur brautskráðir frá Fjölbrautaskóla Vesturlands. Heba Bjarg Einarsdóttir var með bestan námsárangur á stúdentsprófi með... Lesa meira

Slaka á samkomutakmörkunum

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur tilkynnt um slakanir á samkomutakmörkunum frá og með þriðjudeginum 15. júní. Almennar fjöldatakmarkanir fara úr 150... Lesa meira