Þau stilltu sér upp til myndatöku að lokinni afhendingu peningagjafarinnar. F.v. Ingólfur Árnason, sr. Agnes M Sigurðardóttir, sr. Eðvarð Ingólfsson, Indriði Valdimarsson skrifstofustjóri Akraneskirkju og Guðrún Agnes Sveinsdóttir. Ljósm. KI.

Hátíðarguðsþjónusta á 120 ára vígsluafmæli Akraneskirkju

Fjölmenni var viðstatt hátíðarguðsþjónustu á Akranesi í gær. Þá var fagnað 120 ára vígsluafmælis kirkjunnar og 30 ára afmælis safnaðarheimilisins Vinaminnis. Séra Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands prédikaði en auk hennar þjónuðu við athöfnina prestar safnaðarins þeir sr. Eðvarð Ingólfsson og sr. Þráinn Haraldsson auk sr. Þorbjarnar Hlyns Árnasonar prófasts á Borg. Sóknarnefndarfólk las ritningarorð og kirkjukórinn söng undir stjórn Sveins Arnars Sæmundssonar organista.

Eftir guðsþjónustu var gestum boðið til hátíðarkaffis í Vinaminni. Við það tækifæri færðu hjónin Ingólfur Árnason og Guðrún Agnes Sveinsdóttir Akraneskirkju að gjöf þrjár milljónir króna til minningar látna ástvini. Í gjafabréfi segir að gjöfin sé frá fyrirtækjunum Skaganum hf og Þorgeiri og Ellert hf. Sérstaklega minnast þau með gjöfinni þriggja einstaklinga. Árna Ingólfssonar læknis, föður Ingólfs, sem lést í júní síðastliðnum, Unu Jónmundsdóttur, móður Guðrúnar Agnesar, sem lést árið 2013 og Harðar Pálssonar bakara sem lengi var stjórnarformaður Þ&E og sat auk þess í sóknarnefnd Akraneskirkju. Biskup og fulltrúar safnaðirins veittu gjöfinni viðtöku og þökkuðu af alhug þessa höfðinglegu gjöf.

Líkar þetta

Fleiri fréttir