Lenka Ptáčníková og Jón L. Árnason sigruðu á mótinu.

Glæsilegt minningarmót í skák var haldið á Reykhólum

Íslandsmeistarinn Lenka Ptáčníková og stórmeistarinn Jón L. Árnason sigruðu á Minningarmóti Birnu Norðdahl í skák sem haldið var á Reykhólum laugardaginn 20. ágúst. Keppendur komu hvaðanæva af landinu og var mikil stemning í íþróttahúsinu þar sem mótið fór fram við frábærar aðstæður. Mótið var haldið til að minnast Birnu E. Norðdahl (1919-2004) sem var brautryðjandi í kvennaskák á Íslandi. Birna var bóndi og listakona og fyrsta konan sem sögur fara af að hafi teflt á skákmóti hérlendis, árið 1940. Hún átti frumkvæði og allan heiður af því að íslensk kvennasveit fór í fyrsta skipti á Ólympíuskákmót, í Argentínu 1978. Íslenskar landsliðskonur í skák voru heiðursgestir á mótinu á Reykhólum, og í þeim hópi voru skákkonur sem tefldu með Birnu á Ólympíumótum 1978 og 1980. Þetta var hluti af upphitun kvennalandsliðsins fyrir Ólympíumótið í Bakú sem hefst eftir hálfa aðra viku.

 

Ítarlega verður fjallað um mótið í máli og myndum í næsta Skessuhorni.

 

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir