Svipmynd frá einu af fyrri Íslandsmótunum í hrútaþukli.

Íslandsmeistaramót í hrútadómum

Hrútar verða þreifaðir og þuklaðir í Sauðfjársetrinu í Sævangi við Steingrímsfjörð á Ströndum sunnudaginn 21. ágúst. Þá fer fram hið árlega Íslandsmeistaramót í hrútadómum. Jafnan er þátttaka góð í mótinu, bæði í flokki reyndra hrútadómara og eins í flokki óvanra hrútaþuklara. Vestlendingar úr nærliggjandi sveitarfélögum hafa oft fjölmennt á mótið og voru einráðir á verðlaunapalli í flokki reyndra hrútadómara á síðasta ári. Guðmundur Gunnarsson bar sigur úr býtum, en hann er bóndi á Kjarlaksvöllum í Saurbæ í Dölum. Næstur kom Vilberg Þráinsson, bóndi á Hríshóli í Reykhólasveit og í þriðja sæti hafnaði Bjarki Reynisson á Kjarlaksvöllum. Að venju verður kjötsúpa á boðstólnum í hádeginu og kaffihlaðborð allan liðlangan daginn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir