Atvinnuleysi 3,6% á öðrum ársfjórðungi

Samkvæmt tölum Hagstofunnar voru 199.300 manns á aldrinum 16-74 ára á vinnumarkaði á öðrum ársfjórðungi ársins. Af þeim voru 192.100 starfandi og 7.200 án atvinnu og í atvinnuleit. Það þýðir að atvinnuleysi var 3,6% á öðrum ársfjórðungi. Frá því á öðrum ársfjórðungi í fyrra fjölgaði starfandi fólki um 5.600. Atvinnulausum fækkaði á sama tíma um 2.600 manns og hlutfallið lækkaði um 1,4 prósentustig. Konur án atvinnu voru 3.800 eða 4,1% og atvinnulausir karlar voru 3.400 eða 3,2%. Atvinnuleysi var 4,3% á höfuðborgarsvæðinu en 2,4% á landbyggðinni. Þeir sem höfðu verið án atvinnu í 12 mánuði eða lengur á öðrum ársfjórðungi 2016 voru 800 talsins samanborið við 900 á öðrum ársfjórðungi í fyrra. Langtímaatvinnuleysi, sem hlutfall af heildarfjölda atvinnulausra, var 11% í ár samanborið við 9% á sama tíma í fyrra. Sé hlutfallið tekið af öllum á vinnumarkaði hafa 0,4% verið án atvinnu í 12 mánuði eða lengur á öðrum ársfjórðungi 2016 samanborið við 0,5% á síðasta ári.

Líkar þetta

Fleiri fréttir