Nýr deildarforseti ráðinn til LbhÍ

Auður Magnúsdóttir er nýr deildarforseti Auðlinda- og umhverfissviðs Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Þetta kemur fram í frétt á vef LbhÍ. Auður er lífefnafræðingur, lauk BSc prófi í lífefnafræði frá Háskóla Íslands árið 2000 og varði doktorsritgerð í sama fagi við Stokkhólmsháskóla og Karolinska Institut í Svíþjóð árið 2008. Auður starfaði síðast hjá Íslenskri erfðagreiningu þar sem hún var verkefnisstjóri rannsókna á hjartsláttartruflunum og síðan deildarstjóri nýrrar deildar, Funcional genomics, sem hún tók einmitt þátt í að stofna og koma á fót. Þar áður starfaði auður hjá líftæknifyrirtækinu Orf líftækni. Fyrst sem hópstjóri en síðar sem deildarstjóri próteintæknideildar þar sem hún stýrði próteinrannsóknar- og þróunarvinnu fyrirtækisins ásamt framleiðslu á fínhreinsuðum raðbrigðapróteinum úr byggi. Auður var kjörin formaður Samtaka kvenna í vísindum á fyrsta aðalfundi félagsins sem haldinn var í sumar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir