Búfræðinemar fá leiðsögn í að úrbeina kjöt frá Óla Þór Hilmarssyni, sérfærðingi hjá Matís, í heimsókn hans á Hvanneyri síðastliðinn vetur. Ljósm. LbhÍ.

Lífið og landið er rauði þráðurinn í kennslu og rannsóknum

Við Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri er kennt bæði nám á háskólabrautum og starfsmenntabrautum, auk þess sem í boði er endurmenntunarnám. Skólinn opnar dyr sínar á næstu dögum þó formlega verði skólinn ekki settur fyrr en eftir helgi. „Kennsla hefst núna í vikunni í sumarnámskeiðum en annars mánudaginn 22. ágúst á háskólabrautum en mánudaginn 29. ágúst á starfsmenntabrautum,“ segir Björn Þorsteinsson rektor í samtali við Skessuhorn. Sérstök móttaka nýnema háskólabrauta verður mánudaginn 22. ágúst. „Þar verður farið yfir hagnýt atriði er varða skólastarfið, skráningar- og kennslukerfi sem eru í notkun, ásamt fundi með brautarstjórum, kynningu á starfi námsráðgjafa, starfsemi nemendafélagsins og skoðunarferð um Hvanneyrarstað,“ segir Björn.

Samtals hefur 359 nemendum verið veitt skólavist í Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri fyrir komandi vetur. Þar af 193 í starfsmenntanámi á framhaldsskólastigi og 166 í námi á háskólastigi. Nýnemar eru 206 talsins, þar af 123 í starfsmenntanámi og 47 í háskólanámi. Aðspurður um hlutfall staðnema og fjarnema segir Björn það misjafnt eftir námsleiðum. Á sumum brautum séu aðeins staðnemar en á öðrum nær allir fjarnemar. „En þegar á heildina er litið eru við skólann 255 staðnemar og 104 fjarnemar,“ segir hann.

Konur eru í meirihluta nemenda við LbhÍ, 212 en karlar eru 143. Flestir nemendur koma af landsbyggðinni, eða 234 en þó eru 121 með lögheimili á höfuðborgarsvæðinu.

Nánar er sagt frá starfi LbhÍ í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir