Þórður Guðsteinn Pétursson hreppti efsta sæti listans í prófkjörinu.

Kafteinn Pírata á Vestfjörðum vill að listi flokksins verði ógiltur

Síðastliðinn mánudag voru niðurstöður prófkjörs Pírata í Norðvesturkjördæmi kynntar. Niðurstaðan varð sú að Þórður Guðsteinn Pétursson vermir efsta sæti listans, Gunnar Jökull Karlsson varð í öðru sæti og Eiríkur Þór Theódórsson í því þriðja. Töluverð umræða hefur skapast á vef Pírata um málið. Meðal þeirra sem hefur tjáð sig er Halldóra Sigrún Ásgeirsdóttir, kafteinn Pírata á Vestfjörðum. Halldóra hvetur Pírata eindregið til að fella listann en sjálf hafnaði hún í sjötta sæti í prófkjörinu. Hún segir á vef Pírata að það sé óboðlegt að tefla fram manni efst á lista sem fáir þekkja og treysta auk þess sem hún segir það vera óboðlegt að enginn Vestfirðingur sé í efstu fimm sætunum. Hún segist sjálf ekki geta kosið flokkinn ef þetta verður endanlegur listi í Norðvesturkjördæmi og hefur dregið framboð sitt til baka.

Halldóra sakaði Þórð Guðstein um að hafa smalað fólki til að kjósa sig og benti þar á óvenju góða kosningaþátttöku í Norðvesturkjördæmi miðað við önnur stærri kjördæmi. Þórður neitar því í samtali við ruv.is að hafa smalað á listann en segir að hann hafi beðið fjölskyldu sína um að skrá sig í flokkinn og kjósa sig.

Sitt sýnist hverjum á vef Pírata um málið en ef listinn verður felldur fer fram nýtt prófkjör þar sem aðeins þeir sem drógu framboð sitt ekki til baka geta boðið sig fram. Þeir sem munu kjósa í prófkjörinu yrðu ekki aðeins meðlimir Norðvesturkjördæmis heldur allir Píratar á landsvísu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir