Húsbíll á hliðinni í Grundarfirði fyrr í sumar. Þar voru erlendir ferðamenn á akstri. Ljósm. SÁ.

Hlutfall óhappa hækkar þar sem erlendir ferðamenn eiga í hlut

Alls urðu ellefu umferðaróhöpp í umdæmi Lögreglunnar á Vesturlandi í liðinni viku, öll án teljandi meiðsla, enda fólk almennt með öryggisbeltin spennt. Erlendum ferðamanni á bílaleigujeppa fipaðist við aksturinn við Leirá í Hvalfjarðarsveit og var bíllinn „út um allan veg“ að sögn vegfaranda, áður en hann skældist yfir vegrið með miklum skruðningum. Ekki urðu meiðsl á fólki en bíllinn var fjarlægður stórskemmdur með kranabíl. Annar erlendur ferðamaður missti fólksbíl sinn útaf á Holtavörðuheiði í vikunni sem leið. Þrennt var í bílnum sem valt en engan sakaði enda allir í öryggisbeltunum. Þriðji erlendi ökumaðurinn missti stjórn á jepplingi sínum í lausamöl á holóttum malarvegi í Hvítársíðu. Fór bíllinn útaf og valt en ökumaður og farþegi sluppu án teljandi meiðsla. Komu erlendir ferðamenn við sögu í átta af þessum ellefu umferðaróhöppum sem að urðu í umdæmi LVL í sl. viku. Að sögn Theódórs Kr. Þórðarsonar yfirlögregluþjóns er það að líkindum hæsta hlutfall ferðamanna í þessum málaflokki til þessa, en á þessum árstíma hefur þetta hlutfall verið um eða upp undir helmingur slysa og óhappa á undanförnum árum. Verkefni lögreglunnar á Vesturlandi vegna erlendra ferðamanna eru þó ekki að fullu talin því þeir koma einnig vaxandi við sögu í öðrum málaflokkum, svo sem í ökuhraðamælingum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir