Meðan umræðan um Sundabraut stóð sem hæst fyrir gjaldþrot bankanna, voru ýmsar leiðir ræddar um Sundabraut. Hér er teikning af svokallaðri Eyjalausn. Ekkert hefur þó verið ákveðið hvernig Sundabraut verður útfærð.

Hafnar hugmynd ráðherra um gjaldtöku á Sundabraut

Í fréttum að undanförnu hefur Ólöf Nordal innanríkisráðherra viðrað þá skoðun sína að ef bæta eigi vegakerfið um landið til að mæta vaxandi umferð, þurfi að skoða einkaframkvæmdir þar sem skatttekjur ríkissjóðs dugi ekki til. Meðal annars hefur Ólöf nefnt að æskilegt væri að Sundabraut yrði unnin í einkaframkvæmd. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir þingmaður Samfylkingar í Norðvesturkjördæmi leggst gegn þeirri hugmynd. „Verði Sundabrautin gerð að einkaframkvæmd þá verður sú staða uppi í Norðvesturkjördæmi að tvær meginleiðir þangað frá höfuðborginni yrðu með gjaldtöku. Norðvesturkjördæmi er nú þegar eina kjördæmi landsins sem þarf að una gjaldtöku fyrir samgöngur sínar við höfuðstað landsins, með veggjöldum um Hvalfjarðargöng. Ef Sundabarutin bætist við sem einkaframkvæmd þyrftu íbúar kjördæmisins að bera tvöfalda gjaldtöku. Leiðirnar austur og suður um yrðu hinsvegar gjaldlausar eftir sem áður. Finnst mönnum á það bætandi? Ég segi nei,“ segir Ólína.

Hún bætir því við að huga þurfi að jafnræði landshlutanna í samgöngumálum og að Sundabrautin hafi verið til umræðu í áratugi. „Á seinni árum hafa menn farið að gæla við þá hugmynd að gera hana að einkaframkvæmd og greiða niður með veggjöldum. Ef menn ætla að halda áfram með þau áform verður að hugsa jafnhliða um leiðir til þess að jafna kostnaðinum þannig að íbúar Vesturlands, Vestfjarða og Norðvesturlands beri ekki þennan bagga einir.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Stangveiðar með drónum

Þegar blaðamaður Skessuhorns renndi niður Facebook í morgun rakst hann á athyglisverða auglýsingu. Þar auglýsti Suður-Afríska fyrirtækið Gannet búnað fyrir... Lesa meira