Fallegt sólsetur við Norðurá í Borgarfirði. Ljósm. ej.

Vorið í fyrra hefur verið erfitt fyrir laxaseiðin

„Við vorum að veiða á Munaðarnessvæðinu í Norðurá en fengum ekki mikið, urðum aðeins varir, en ekki meira en það,“ sagði Eggert Jóhannesson sem var á veiðislóðum í Norðurá í Borgarfirði í vikunni sem leið. „Veiðimenn sem voru að veiða á móti okkur í Straumunum fengu nokkra laxa meðan við stoppuðum þarna við, en þeir voru ekki stórir. Eiginlega bara mjög smáir laxar,“ sagði Eggert ennfremur um veiðiferðina.

Norðurá var í síðustu viku búin að gefa ríflega þúsund laxa í sumar, en Þverá og Kjarará eru á toppi vestlensku ánna með um 1500 laxa. Skammt á eftir Norðurá í röðinni koma síðan Haffjarðará og Langá með um eða yfir 900 laxa hvor á. Heldur hefur hægt á veiðinni í ánum eftir því sem liðið hefur á sumarið enda þurrkar verið miklir og þær vatnslitlar. Þrátt fyrir öfluga byrjun stefnir því líklega í meðal veiðisumar á svæðinu. Fyrri hluti sumars einkenndist af stórlaxi en fyrst og fremst er það smálaxinn sem er að svíkja þetta sumarið og bendir það til að kalt vor í fyrra hafi reynst seiðunum erfitt.

Líkar þetta

Fleiri fréttir