Inga Björk Bjarnadóttir.

Inga Björk stefnir á annað af tveimur efstu sætum lista Samfylkingar

Inga Björk Bjarnadóttir hefur ákveðið að gefa kost á sér í 1. – 2. sæti í flokksvali Samfylkingarinnar sem fram fer dagana 8.-10. september næstkomandi.

„Mín draumsýn er að hér verði til samfélag þar sem öll stöndum við á sama stað við ráslínuna áður en lífshlaupið hefst og getum verið viss um að samfélagið grípi okkur þegar við hrösum á leiðinni,“ segir Inga Björk í tilkynningu á Facebook-síðu sinni og útskýrir því næst hvað hún á við. „Að öll börn fái góða, gjaldfrjálsa menntun óháð búsetu og efnahag foreldra, að þeir sem glíma við heilsubrest geti verið vissir um að þurfa einungis að hafa áhyggjur af veikindum sínum en ekki sligandi læknis- og lyfjakostnaði, að ungt fólk þurfi bara að burðast með bækur ekki himinhá námslán, að hver einstaklingur fái að blómstra í samfélaginu okkar á sínum forsendum óháð kyni, kynþætti, skerðingu, kynhneigð og -vitund og að bótakerfið okkar sé mannlegt og geri fólki kleift að lifa, ekki bara vera á lífi.“

Hún segir Íslendinga vera ríka þjóð af auðlindum og mannauði og geta vel boðið upp á slíkan veruleika. Það þurfi bara að stokka upp á nýtt. „Mér finnst mikilvægt að fá fólk á þing sem hefur reynt á eigin skinni samskipti við kerfið — þurft að upplifa fordóma, þegið bætur, legið á spítala, átt í óendanlegum baráttum við kerfin okkar, að ná ekki saman endum saman og þurfa að ganga á sparifé til að mæta heilbrigðiskostnaði o.s.frv.,“ segir Inga Björk.

Líkar þetta

Fleiri fréttir