Góð berjaspretta í sumar

Útlit er fyrir að um allt vestanvert landið verði berjaspretta með betra móti í sumar. Rekja má það til þess að voraði snemma og sumarið hefur verið milt og venju fremur sólríkt. Aðalbláber og krækiber eru víða nú þegar vel sprottin og tínsluhæf en bláber virðast eiga nokkra daga eða viku í að ná jöfnum og fullum þroska. Engu að síður eru grænjaxlar bláberja sætir og safaríkir og því allt í lagi þó þeir fylgi með í dollurnar hvort sem er til átu eða í sultugerð. Á Bröttubrekku og við Svínadal í Dölum er farið að bera á rauðbrúnum lyngjum í hlíðum og ekki ólíklegt að flugan birkifeti sé þar á ferð, en birki og bláberjalyng er kjörlendi fetans. Á norðanverðu Snæfellsnesi eru aðalbláber vel þroskuð og sömu sögu er að segja úr Skorradal í Borgarfirði. Á bláberjalyngi í uppsveitum Borgarfjarðar er mikið af berjum en herslumuninn vantar upp á þroska.

Líkar þetta

Fleiri fréttir