Fjölga súrálslögnum til álvers Norðuráls

Á fundi umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefndar Hvalfjarðarsveitar 4. ágúst síðastliðinn var tekin fyrir umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir fjölgun súrálslagna í jörðu frá lóð Norðuráls á hafnarsvæði Grundartangahafnar. Fyrr í sumar hafði afgreiðslu málsins verið frestað þar sem beðið var eftir umsögnum frá Faxaflóahöfnum, Elkem Ísland, Meitli, Klafa, Vegagerðinni, RARIK, Mílu og Fjarskiptum. Nefndinni bárust engar athugasemdir frá umsagnaraðilum. Því lagði nefndin til við sveitarstjórn að gefið verði út framkvæmdaleyfi fyrir fjölgun súrálslagna í jörðu.

 

Liður í framleiðsluaukningu

Súráli er skipað upp með leiðslum í stóra geymslutanka og þaðan er því dælt beint í kerin. Mannshöndin kemur því hvergi nærri með beinum hætti. Ágúst Hafberg, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar og samskipta hjá Norðuráli, segir að lagnirnar sem nú stendur til að fjölga séu þær sem liggja frá geymslutönkunum og í kerin í kerskálum. Er fjölgun súrálslagnanna liður í framleiðsluaukningu Norðuráls. Verið er að auka afkastagetu hvers kers með straumhækkun og því þurfi meira súrál í hvert ker.

Samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu er ekki á dagskránni að reisa nýjan kerskála. Aðeins er verið að auka heildarframleiðsluna án þess að bæta við. Hins vegar eru uppi áform um nýjan steypuskála Norðuráls, eins og Skessuhorn greindi frá fyrr í sumar, því steypuskálinn þarf jú að geta annað framleiðslu kerskálanna. Ekkert hefur þó verið ákveðið í þeim efnum enn sem komið er að sögn Ágústs.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Gleðilegt sumar!

Skessuhorn óskar lesendum sínum, ungum sem gömlum, til sjávar og sveita, gleðilegs sumars.