Nú í morgun, föstudag, var byrjað að reisa fyrstu Loftorkueiningarnar á sökklana. Ljósm. kgk.

Brátt rís fyrsta blokk af þremur við Asparskóga

Eins og Skessuhorn greindi frá fyrr í sumar munu senn rísa íbúðablokkir á Akranesi við Asparskóga 27 og 29. Það er fyrirtækið Uppbygging ehf., í eigu Engilberts Runólfssonar byggingaverktaka, sem byggir. Í hvoru húsi um sig verða tólf íbúðir, þriggja og fjögurra herbergja, 100-125 fermetrar með geymslum. Verða þær seldar fullbúnar með gólfefnum og áætlað er að þær munu kosta milli 300 og 320 þúsund krónur á hvern fermetra. Framkvæmdin sjálf er líklega ein stærsta einstaka framkvæmd í íbúðabyggingum á Akranesi frá hruni, en áætlað er að hún komi til með að kosta um 700 milljónir króna.

Fyrst verður hafist handa við að reisa fjölbýlishúsið að Asparskógum 27 og að sögn Engilberts ganga framkvæmdir vel „Þetta gengur fínt. Það eru komnir sökklar og lagnir og allt saman tilbúið undir einingar,“ segir Engilbert í samtali við Skessuhorn fyrir helgi. „Fyrsta hæðin verður reist í næstu viku og svo munu hlutirnir gerast hratt eftir það,“ bætir hann við.

Engilberg telur að íbúðirnar verði settar á sölu eftir hálfan mánuð eða svo og hefur fulla trú á því að þær seljist hratt og örugglega. „Þetta verður glæsilegt hús og ég hef fulla trú á því að íbúðirnar seljist mjög fljótt eftir að þær verða settar á sölu. Miðað við fyrirspurnir og eftirvæntingu reikna ég ekki með að þær verði lengi að seljast,“ segir hann.

 

Ein blokk til viðbótar við hinar tvær

Að sögn Engilberts munu framkvæmdir við Asparskóga 29 hefjast eftir þrjár til fjórar vikur. Þar að auki hyggur Engilbert að um svipað leyti geti hafist framkvæmdir við fjölbýlishús við Asparskóga 24, einnig á vegum Uppbyggingar ehf. Hann kveðst hafa mikla trú á svæðinu. „Það er íbúðaskortur, bæði á nýjum íbúðum í sölu og leiguíbúðum. Ég hef gríðarlega trú á svæðinu og það verður mikil uppbygging á Akranesi á næstu árum,“ segir Engilbert. „Það er ár síðan uppsveiflan byrjaði í Reykjavík. Nú er hún að síast út í hliðarbyggðirnar við höfuðborgarsvæðið. Fasteignaverð á Akranesi fer hækkandi eins og annars staðar og ég held að það verði byggt mikið á svæðinu á næstu árum,“ segir hann og bætir því við að ýmislegt fleira sé í kortunum hjá Uppbyggingu ehf, en vill þó ekkert gefa upp um þær áætlanir að svo stöddu. „Það er fleira komið á kortið hjá okkur og margt spennandi á Akranesi. Ég flutti sjálfur hingað fyrir ári síðan og þetta er frábært samfélag, barnvænt og gott að búa hér,“ segir Engilbert.

Líkar þetta

Fleiri fréttir