Hluti amerísku víkinganna er hér staddur á Borg á Mýrum. Ljósm. Þorleifur Geirsson.

Amerískir víkingar taka upp myndefni hér á landi

Í gær kom til landsins tíu manna hópur víkinga frá Massachusetts í Bandaríkjunum. Þetta eru meðlimir í Hurstwick víkingaklúbbnum sem leggur stund á lestur Íslendingasagna ásamt því að æfa bardagatækni víkingaaldar. Forsprakki hópsins er dr. William R. Short. Hingað til lands er hópurinn kominn til að fara út í Drangey og kvikmynda 82. kafla Grettis-sögu, það er að segja lokabardaga Grettis Ásmundarsonar. Fólkið mun fá aðstoð frá íbúum á Sauðárkróki og víkingaklúbbur frá Austfjörðunum mun einnig leggja því lið. Hópurinn fer síðan af landi brott 17. ágúst. Ætlunin er að gefa myndina út á dvd diski sem verður settur í almenna sölu á amazon.com.

Fyrsti stoppistaður hópsins í gær var Borgarnes þar sem vistir voru keyptar og matast áður en haldið skyldi til Eiríksstaða í Haukadal til að taka upp myndefni í tilgátubænum. Áður en lagt var af stað vestur gaf hópurinn sér tíma til að fara í stutta pílagrímsheimsókn til Borgar á Mýrum þar sem meðfylgjandi  mynd var tekin (á myndina vantar tvo liðsmenn).  Áður kom þessi sami hópur til landsins fyrir tveimur árum til að taka upp lokakafla Gísla sögu Súrssonar í Geirþjófsfirði. Sú mynd var gefin út á dvd og er fáanleg á Amazon.com.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Stangveiðar með drónum

Þegar blaðamaður Skessuhorns renndi niður Facebook í morgun rakst hann á athyglisverða auglýsingu. Þar auglýsti Suður-Afríska fyrirtækið Gannet búnað fyrir... Lesa meira