Afar óvarlega farið með eld í þurrum skóginum

„Ef fólk hagar sér svona, er ekki spurning um hvort, heldur hvenær Skorradalurinn brennur til kaldra kola,“ segir maður sem á rætur í Skorradal í Borgarfirði. Hann áframsendi jafnframt mynd til ritstjórnar sem sett var á Facebook síðu eiganda sumarhúss í dalnum fyrr í dag. Myndin er líklega tekin í landi Stálpastaða en þar hafa einhverjir leikið þann ljót leik að kveikja varðeld í skóginum. Vafalítið hefur litlu mátt muna að illa færi. Eftir þurrt sumar eins og nú, er allur gróður afar þurr og því ástæða til að hvetja fólk sérstaklega til aðgæslu í meðförum með eld, kolagrill og ekki síst að hvetja reykingafólk til að kasta ekki frá sér stubbunum. Rifja má upp að Mýraeldarnir fyrir tíu árum kviknuðu sökum þess að vegfarandi um Snæfellsnesveg henti logandi sígarettu út um bílglugga.

Líkar þetta

Fleiri fréttir