Hilmir B. Auðunsson pípulagningameistari.

Fær ekki starfsmenn og flytur því fyrirtækið suður

Hilmir B Auðunsson pípulagningameistari hefur ákveðið að hætta rekstri pípulagningafyrirtækis síns í Borgarnesi og flytja starfsemina á höfuðborgarsvæðið. Ástæðuna segir Hilmir þá að hann sé búinn að gefast upp á að reyna að fá menn til starfa í Borgarnesi. Undanfarin misseri hefur hann haft tvo starfsmenn með sér og hættir annar í haust. Þrátt fyrir ítrekaðar auglýsingar hefur honum ekki tekist að fá menn til starfa. „Það er því miður ekki grundvöllur til að standa í þessum rekstri á þessu svæði vegna þess að ég get ekki mannað fyrirtækið hjá mér. Í níu mánuði hef ég verið með auglýsingu á Facebook síðu minni og hefur hún engu skilað, né auglýsingar í blöðum. Frá og með 1. september næstkomandi mun ég því draga mig út af svæðinu en lýk að sjálfsögðu þeim verkefnum sem ég hef tekið að mér. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka viðskiptavinum mínum í Borgarnesi og Borgarfirði fyrir góðar viðtökur og ítreka að það er ekki vegna verkefnaskorts sem ég hætti starfseminni í Borgarnesi, heldur eingöngu vegna starfsmannaskorts. Þannig get ég ekki látið fyrirtækið vaxa og dafna eins og ég hefði kosið,“ sagði Hilmir.

Líkar þetta

Fleiri fréttir