Anna Margrét Sigurðardóttir er framkvæmdastýra Danskra daga.

Danskir dagar framundan í Stykkishólmi

Danskir Dagar verða haldnir í 22. sinn í Stykkishólmi um næstu helgi en hátíðin er ein af elstu bæjarhátíðum landsins. Að sögn Önnu Margrétar Sigurðardóttur, framkvæmdastýru Danskra daga, hefur verið sett saman fjölbreytt dagskrá þar sem nóg verður í boði fyrir alla. „Hátíðin er fjölskylduhátíð og dagskráin eftir því, allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi,“ segir Anna Margrét í samtali við Skessuhorn.

Meðal þess sem boðið verður uppá er Stubbahlaup, markaðstjöld og fjölbreytt dagskrá á sviði á hátíðarsvæðinu. Dagskráin sjálf hefst klukkan tvö á föstudaginn með Loppemarked í tónlistarskólanum en þar getur fólk selt notaðar gersemar úr geymslunni. „Á föstudagskvöldinu er dagskráin mest í höndum veitingastaða bæjarins en við sem stöndum að hátíðinni erum sjálf að einblína frekar á laugardaginn. Hin árlegu hverfagrill verða þó á sínum stað á föstudagskvöldinu,“ segir Anna Margrét. Eftir gott morgunjóga sem boðið verður uppá á laugardagsmorgninum ættu allir hátíðargestir að vera tilbúnir í dagskrá dagsins. „Það verður mikið fjör á laugardeginum, Brúðubíllinn og Heiðar og Haraldur úr Pollapönk verða ásamt fleirum á hátíðarsvæðinu og svo verður m.a. boðið upp á froðurennibraut og dorgveiðikeppni. Í fyrra var haldin fyrirtækjakeppni í loftbolta og sló það alveg í gegn svo við ákváðum að hafa keppnina aftur í ár og hvetjum við fyrirtæki og aðra hópa til að skrá sig til leiks,“ segir Anna Margrét. Um kvöldið verður síðan fjölbreytt dagskrá á sviðinu og koma fram meðal annars Alda Dís og Páll Óskar ásamt tónlistarfólki úr Hólminum. Brekkusöngurinn og flugeldasýningin verða svo að sjálfsögðu á sínum stað og dagskráin endar svo með stórdansleik með Páli Óskari í íþróttamiðstöðinni. Fyrir þá sem vilja kynna sér dagskrána nánar er hægt að nálgast hana á Facebook síðu Danskra daga og á heimasíðu hátíðarinnar, www.danskirdagar.stykkisholmur.is

„Við hvetjum alla til að skreyta í dönsku fánalitunum og að mæta í hátíðarskapi því það verður mikil stemning í bænum þessa helgi,“ segir Anna Margrét að lokum.

Danskir dagar framundan_Dagskrá_jpg

Líkar þetta

Fleiri fréttir