Dagný Rósa tekur þátt í forvali VG í Norðvesturkjördæmi

Dagný Rósa Úlfarsdóttir er í hópi þeirra sem hafa að bjóða mig fram í forvali Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í NV kjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar. Býður hún sig fram í 3.-5. sæti. Forvalið fer fram 31. ágúst til 5. september nk.

„Mér finnst mikilvægt að fyrir VG starfi fjölbreyttur hópur með mismunandi sjónarmið og reynslu og því tek ég þátt. Ég hef setið í sveitarstjórn Skagabyggðar í sex ár og öðlast þar góða og mikla reynslu. Ég er búsett í Austur-Húnavatnssýslu og hef starfað sem grunnskólakennari á Skagaströnd síðan 1999. Mér eru ofarlega í huga mennta-, heilbrigðis-, landbúnaðar- og samgöngumál og tel að þar megi gera ýmislegt betur. Þessi málefni eru einmitt þau sem skipa íbúa kjördæmisins miklu máli. Hlúa þarf vel að þeim heilbrigðis- og menntastofnunum sem eru á svæðinu því þær eru hjartað í hverju samfélagi. Þær hafa mátt þola niðurskurð undanfarin ár en þeirri þróun er nauðsynlegt að snúa við. Við erum með sterk landbúnaðarhéruð og viljum halda þeim þannig áfram. Samgöngumál innan kjördæmisins skipta alla landsmenn máli og ljóst er að þar þarf að gefa verulega í þar sem ástand malarvega er víða orðið þannig að hættulegt fer að verða að fara um þá. Góðar nettengingar þykja sjálfsagður hlutur í dag og frekari uppbygging ljósleiðaranets um landið er nauðsynleg fyrir íbúa og núverandi atvinnustarfsemi sem og fyrir nýsköpun og ný atvinnutækifæri,“ segir í yfirlýsingu frá Dagný Rósu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir