Bjarni Jónsson sækist eftir oddvitasæti VG

Bjarni Jónsson hefur ákveðið að gefa kost á sér í forvali Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Norðvesturkjördæmi og sækist eftir oddvitasætinu.

Bjarni er fæddur 6. júní árið 1966 og ólst upp í Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi til 14 ára aldurs þegar fjölskylda hans fluttist að Hólum í Hjaltadal. Þar bjó hann til ársins 2010 að hann flutti á Sauðárkrók. Bjarni er kvæntur Izati Zahra og á eina dóttur af fyrra sambandi.

Bjarni lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra árið 1986 og BA prófi í hagsögu með viðskiptafræði sem aukagrein frá Háskóli Íslands árið 1992. Bjarni lauk síðan meistaranámi í fiskifræði og stærðfræðilegri tölfræði frá Oregon State University í Bandaríkjunum árið 1996 og stundar nú nám í forystu og stjórnun með áherslu á sjálfbæra stjórnun við Háskólann á Bifröst.

„Ég hef ávallt haft brennandi áhuga á félagsmálum, hef tekið virkan þátt í starfi hreyfingarinnar allt frá stofnun hennar árið 1999 og er núverandi formaður Svæðisfélags VG í Skagafirði. Ég hef einnig setið í sveitarstjórn Skagafjarðar fyrir VG frá árinu 2002, verið forseti sveitarstjórnar, formaður landshlutasamtaka NV og sit í ráðgjafanefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, ásamt því að hafa gegnt fjölmörgum öðrum trúnaðarstörfum á vettvangi sveitarstjórnarmála,“ segir Bjarni. „Einnig hef ég beitt mér sérstaklega fyrir og unnið að hagsmunum landsbyggðinnar og hinna dreifðu byggða með margvíslegum hætti og ýmsum öðrum vettvangi. Áhugi minn hefur beinst að nýsköpun, menntun og æskulýðsstarfi,“ bætir hann við.

„Ég  tel mig hafa víðtæka reynslu og þekkingu á málefnum  landsbyggðarinnar og vil gjarna beita kröftum mínum í þágu kjördæmisins. Mín áherslumál í sveitarstjórn sem og á vettvangi landshlutasamtaka hafa verið heilbrigðismál, umhverfi, samgöngubætur og atvinnusköpun á landsbyggðinni. Þau áherslumál þarf einnig að taka upp með beittari hætti á landsvísu. Þá brenn ég einnig fyrir grunngildum Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs um náttúruvernd,  jöfnuð og byggðajafnrétti, sem eiga svo sannarlega erindi til Íslendinga hvar sem þeir búa.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir