Teikning að fyrirhugaðri sólarkísilverksmiðju Silicor á Grundartanga.

Samningur ríkisins og Silicor hóflegur að mati ESA

Davíð Stefánsson, fulltrúi Silicor á Íslandi.

Davíð Stefánsson, fulltrúi Silicor á Íslandi.

Eftirlitsstofnun EFTA hefur samþykkt ívilnanasamning íslenska ríkisins við Silicor Materials vegna byggingar sólarkísilverksmiðju fyrirtækisins á Grundartanga. Samningurinn kveður á um skattahagræði, það er að segja afslátt á sköttum og opinberum gjöldum, og ívilnanir á reglum um leigu og fyrningu. Þetta kemur fram á heimasíðu ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA. Samningurinn gildir til tíu ára og andvirði hans á því tímabili, í formi ívilnana og skattahagræðis, er 4,6 milljarðar króna en heildarfjárfesting Silicor á Grundartanga verður um 120 milljarðar króna.

Samkvæmt leiðbeiningarreglugerðum EFTA við gerð slíkra ívilnanasamninga verður viðkomandi ríki að sýna fram á að fyrirhuguð aðstoð sé viðeigandi. Enn fremur þarf ríkið að tryggja að aðstoðin sé hófstillt og hagræði af henni vegi þyngra en möguleg samkeppnisröskun. „Aðstoðin til Silicor Materials á Vesturlandi er byggð á uppbyggingarstefnu, sem hefur í för með sér ávinning fyrir allt svæðið og því hefur ESA samþykkt hana,“ segir forseti ESA, Sven Erik Svedman. Þá segir auk þess að ESA hafi komist að þeirri niðurstöðu að fyrirhuguð aðstoð hafi hvatningaráhrif þar sem ekki hefði verið ráðist í framkvæmdir án fyrirheita um ríkisaðstoð. Aðstoðin stuðli þar með að atvinnusköpun, laði til sín fyrirtæki, auki efnahagslega fjölbreytni og búi til störf. „Þetta er mikilvægur áfangi í undirbúningi verkefnisins. ESA staðfestir með þessu að stuðningurinn sé í samræmi við þau viðmið sem stofnunin setur. Næstu áfangar eru að ljúka síðari hluta fjármögnunar og ganga frá samningum um orkuafhendingu,“ segir Davíð Stefánsson, fulltrúi Silicor á Íslandi, í samtali við Skessuhorn.

Reynt að flýta afhendingu raforku

Samið var við Orku náttúrunnar um afhendingu á 40 MW af raforku síðasta haust og geta þau komið til afhendingar árið 2018. Náðst hafa samningar um helstu skilmála að orkusamningi við Landsvirkjun upp á afhendingu á 40 MW til viðbótar, en frá árinu 2020. Davíð segir að nú sé reynt að flýta afhendingu á orku frá Landsvirkjun til 2018. „Þessa dagana erum við að reyna að fá afhendingu orkunnar flýtt til ársins 2018 eða 2019 til að starfsemi geti hafist sem fyrst,“ segir hann.

Síðastliðið haust var einnig gengið frá fyrsta áfanga fjármögnunar vegna byggingar sólarkísilverksmiðju Silicor. Nam sá áfangi 14 milljörðum króna en heildarkostnaður vegna framkvæmdarinnar er áætlaður 120 milljarðar króna, eins og áður segir. Lánsfjármögnun undir forystu Þróunarbanka Þýskalands KfW kemur til með að standa undir um 60% af heildarkostnaði. Davíð segir að fjármögnun verkefnisins gangi vel. „Þetta tekur allt saman sinn tíma, bæði viðræður um að flýta afhendingu raforkunnar og vinna við fjármögnun framkvæmdarinnar. En þessu miðar hægt og örugglega áfram,“ segir hann.

Líkar þetta

Fleiri fréttir