Hér má sjá hversu umfangsmiklir eldarnir í ruslinu voru á þriðjudagskvöldið. Ljósm. Jón Þór Þorvaldsson.

Reykur gæti sést áfram frá Fíflholtum

Hrefna B Jónsdóttir framkvæmdastjóri Sorpurðunar Vesturlands sendi síðdegis í dag frá sér fréttatilkynningu vegna brunans sem varð á sorpurðunarsvæðinu í Fíflholtum í gær og fram á morgun. „Reikna má með að reykur stígi upp af svæðinu eitthvað áfram því ef opna þarf hauginn þá er hitinn það mikill að það mun sjást utan frá. Er með því verið að vinna gegn því að eldur kvikni að nýju,“ segir Hrefna. „Það er þó búið að slökkva eldinn í Fíflholtum en fyrr í dag var verið að ýta út haug og kemur talsverður reykur frá þeirri vinnu. Svæðið verður vaktað vel svo ekki kvikni í að nýju því glóðin er þrálát. Eldurinn hefur einungis verið í urðunarrein og ekkert sloppið þaðan. Veðurguðirnir hafa verið okkur hagstæðir í þessari uppákomu,“ segir Hrefna.

Við brunann í gær og nótt var unnið samkvæmt viðbragðsáætlun urðunarstaðarins í tilfellum sem þessum, en starfsemi á svæðinu er unnin samkvæmt starfsleyfi sem gefið er út af Umhverfisstofnun.  Þar er kveðið á um frágang úrgangs á urðunarstað. „Lítil hætta er talin stafa af reyknum fyrir umhverfið þótt bruni sé aldrei góður sem slíkur. Þeir sem eru í mestri hættu eru starfsmenn sem vinna við að ráða niðurlögum eldsins. Þetta er með viðameiri frávikum sem hafa komið upp í starfsemi urðunarstaðarins í Fíflholtum en vonast er til að óþægindi verði sem minnst fyrir íbúa svæðisins,“ segir Hrefna að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir