Til marks um hversu hátt reykinn frá Fíflholtum lagði birtum við hér mynd sem tekin var frá fjöruborðinu við Ægisbraut á Akranesi síðdegis í gær. Ljósm. bþb.

Mestu eldar frá upphafi á urðunarstaðnum í Fíflholtum

Eldur kom upp á urðunarstað Sorpurðunar Vesturlands í Fíflholtum á Mýrum í fyrrinótt en hans varð vart klukkan 7:45 í gærmorgun. Að sögn Þorsteins Eyþórssonar staðarhaldara er ekki óalgengt að sjálfsíkveikja verði á urðunarstöðum, þegar nær að hitna í haugunum áður en þeir eru urðaðir. Er þá iðulega gripið til þess ráðs að kæfa eldinn með meira rusli og þjappa vel yfir. Það var einnig gert í gærmorgun og gekk ágætlega framan af. Þá brá hins vegar svo við að troðarinn sem notaður er til verksins bilaði og náði eldurinn að blossa upp að nýju. Þorsteinn segir að um hádegisbil í gær hafi ekki annað verið í stöðunni en að kalla til tiltæka vörubíla og voru þegar mest var fjórir trailer vörubílar sem óku möl frá Hítará og sturtuðu yfir hauginn. Stóðu malarflutingar yfir fram á fimmta tímann í morgun. Þá loks náðist að drepa síðustu glæðurnar. Alls var ekið um þrjú þúsund rúmmetrum af möl yfir eldinn.

Þorsteinn segir að nú verði haugarnir vaktaðir næstu sólarhringa því alltaf sé ákveðin hætta að eldur nái að blossa upp að nýju. Þorsteinn sagði jafnframt að eldurinn í gær hafi verið sá mesti á urðunarstaðnum í Fíflholtum frá því starfsemin hófst.

Mikinn reyk lagði frá urðunarstaðnum í gær og var hann til óþæginda fyrir íbúa vindmegin við reykinn, en átt var sunnan- og suðvestanstæð. Þá kvörtuðu íbúar í ofanverðum Borgarfirði einnig yfir megnri ólykt sem lagði yfir sveitirnar, meðal annars Norðurárdal og Stafholtstungur um tíma í gærkvöldi.

Hér má sjá hversu umfangsmiklir eldarnir í ruslinu voru á þriðjudagskvöldið. Ljósm. Jón Þór Þorvaldsson.

Líkar þetta

Fleiri fréttir