Þannig lítur Brauðgerð Ólafsvíkur út eftir breytingar. Ljósm. af.

Brauðgerð Ólafsvíkur fær nýtt útlit

Skipt var um glugga og gler í Brauðgerð Ólafsvíkur nú í sumar og um leið fékk bakaríið örlítið breytt útlit. Settar voru skemmtilegar filmur með gömlum ljósmyndum á nýja glerið. „Okkur þótti þetta ágætis hugmynd og lögðumst í smá grúsk til að finna réttu myndirnar. Þessar heilluðu okkur, höfðum því samband við eigendur þeirra og fengum leyfi til að nota þær. Ferró skiltagerð sá svo um að útbúa þessar filmur og þær eru síðan límdar á glerið,“ segir Bjarney Jörgensen í samtali við Skessuhorn, en hún á og rekur Brauðgerðina ásamt eiginmanni sínum, bakarameistaranum Jóni Þór Lúðvíkssyni og fjölskyldu hans.

„Okkur langaði að hafa myndir af merkum stöðum bæjarins á árum áður. Fyrsta myndin er af Dagsbrún, gamla kaupfélaginu hér í Ólafsvík. Sú næsta er af gömlu kirkjunni sem stóð á Snoppunni. Á þeirri þriðju má sjá húsaþyrpingu, Símstöðin er þar í forgrunn og gamla höfnin hér í Ólafsvík í baksýn,“ segir Bjarney. „Fjórða myndin sem stendur stök, er af Lúðvík Þórarinssyni tengdapabba mínum, en hann stofnaði Brauðgerðina ásamt eiginkonu sinni Sigríði Jónsdóttur,“ bætir Bjarney við.

Líkar þetta

Fleiri fréttir