Borgarbyggð himinlifandi með vel heppnað Unglingalandsmót

Unglingalandsmót UMFÍ fór fram dagana 28.- 31. júlí í Borgarnesi, eins og ítarlega hefur verið fjallað um í Skessuhorni. Heppnaðist mótið mjög vel og virtust allir vera ánægðir með það. Byggðarráð Borgarbyggðar lýsti yfir ánægju sinni með vel heppnað mót í yfirlýsingu og segir að samstarf Borgarbyggðar við UMFÍ og UMSB við undirbúning og framkvæmd mótsins hafi verið eins gott og hugast getur. Færir byggðarráð þar ungmennafélagshreyfingunni þakkir fyrir gott og ánægjulegt samstarf við þetta stóra verkefni. Sérstakir þakkir fá allir þeir fjölmörgu sjálfboðaliðar úr héraðinu sem komu að framkvæmd mótsins á einn eða annan hátt. Þá segir í bókun Byggðarráðs: „Án þess metnaðar og dugnaðar sem einkenndi aðkomu heimafólks væri ógerlegt að standa fyrir viðburði sem þessum. Öll umgengni og nærvera gesta á meðan á mótinu stóð var síðan til fyrirmyndar. Lögreglan lýsti yfir sérstakri ánægju sinni með góð samskipti við mótsgesti. Að lokum má nefna að frágangur á tjaldstæði að mótinu afloknu var einstaklega góður og var hann í samræmi við þann anda sem ríkti meðal mótsgesta alla helgina.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir