Hér er þakskegg rofið og komist að síðustu glæðum eldsins. Slökkvistarfi lauk rúmum tveimur tímum eftir að það hófst í morgun, eða á ellefta tímanum.

Slökkvistarfi lokið á Breiðinni

Slökkvilið Akraness og Hvalfjarðarsveitar hefur nú náð að komast fyrir síðustu glæðirnar í húsnæði Vélsmiðjunnar Jötunstáls á Hafnarbraut 16 á Akranesi. Eldur kom upp í vélsmiðjunni í morgun og urðu starfsmenn fyrstir varir við eldinn þegar þeir mættu til vinnu klukkan 8. Að sögn Þráins Ólafssonar slökkviliðsstjóra gekk slökkvistarf vel miðað við aðstæður. Milliloft var þó inni í hluta rýmisins og torfeldaði það slökkvistarf. Auk þess var talsvert af gaskútum inni í smiðjunni. Rjúfa þurfti hluta þaksins til að komast að eldinum. Að sögn Þráins tóks að koma í veg fyrir að eldur næði að berast inn í suðurenda hússins þar sem veiðarfærageymsla útgerðarmanns er. Þangað barst þó reykur. Iðnaðarhúsið við Hafnarbraut 16 er steinsteypt og í því eru tveir eldveggir. Syðri veggurinn kom í veg fyrir að eldur næði að berast yfir í veiðarfærageymsluna.

Húsnæði Jötunstáls er ónýtt og öll verkfæri og tæki sem innandyra voru. Talið er að eldsupptök hafi verið í jeppabifreið sem stóð inni í húsinu. Þetta er í annað skipti á innan við tveimur árum sem bruni verður í Jötunstáli á Akranesi og fékk atvik þetta í morgun mjög á eiganda fyrirtækisins. Hann var hvattur til að leita sér áfallahjálpar sem hann þáði á Heilbrigðisstofnun Vesturlands. Fjórir starfsmenn eru hjá Jötunstáli og mikil verkefni að undanförnu, að sögn starfsmanns sem blaðamaður Skessuhorns ræddi við. Þeim var öllum eðlilega mikið brugðið.

Vélsmiðjan Jötunstál á Akranesi eldi að bráð_11 Vélsmiðjan Jötunstál á Akranesi eldi að bráð_12 Vélsmiðjan Jötunstál á Akranesi eldi að bráð_13

Líkar þetta

Fleiri fréttir