Kristmann Arnkelsson og Trausti Magnússon, heiðurs- og stofnfélagar hesteigendafélagsins Hrings, tóku fyrstu skóflustunguna að nýrri reiðskemmu félagsins. Ljósm. þa.

Fyrsta skóflustungan tekin að nýrri reiðskemmu

Eins og Skessuhorn greindi frá í júnímánuði hefur verið ákveðið að reisa reiðskemmu á svæði hesteigendafélagsins Hrings í Ólafsvík. Fyrsta skóflustungan að skemmunni var tekin þriðjudaginn 2. ágúst síðastliðinn af þeim Kristmanni Arnkelssyni og Trausta Magnússyni, heiðurs- og stofnfélögum hesteigendafélagsins. Framkvæmdir hófust sama dag. Að sögn Stefáns Smára Kristóferssonar, formanns hesteigendafélagsins Hrings, er stefnt að því að ljúka framkvæmdum að stórum hluta í haust. „Það á að reyna að klára í haust að stórum hluta þannig að það verði hægt að nota skemmuna í vetur,“ segir hann en bætir því við að félagsaðstaðan verði ef til vill ekki tilbúin fyrr en á næsta ári.

Skemman verður staðsett á svæði hesteigendafélagsins við Fossá og kemur frá Límtré-Vírneti. Stærð hennar er 18 sinnum 38 metrar. Hesteigendafélagið stendur að verkefninu með styrk frá sveitarfélaginu Snæfellsbæ. Heildarkostnaður við byggingu reiðskemmunnar er áætlaður 24 til 26 milljónir króna, að sögn Stefáns Smára. Hann segir að skemman komi til með að bæta aðstöðu félagsmanna til mikilla muna. „Hingað til höfum við ekki haft neina inniaðstöðu. Þetta er því lífsspursmál fyrir allt okkar vetrarstarf; námskeiðahald fyrir börn og fullorðna og fleira slíkt,“ segir hann.

Líkar þetta

Fleiri fréttir