Jökull Fannar og Bjarni Kristinn yfirmenn Slökkviliðs Borgarbyggðar. Ljósm. úr safni Skessuhorns.

Segir að bæta þurfi búnað slökkviliðsins vegna fyrirhugaðs háhýsis

Nú er unnið að framkvæmdum við Borgarbraut 57-59 í Borgarnesi þar sem á næstu mánuðum á að rísa fimm hæða hótelbygging með 82 herbergjum og sjö hæða íbúðablokk fyrir 60 ára og eldri. Í íbúðahlutanum verða 29 íbúðir. Byggingarnar tvær munu tengjast með þjónustukjörnum á jarðhæð og undir þeim verður bílakjallari sem tilheyra mun íbúðablokkinni.

Bjarni Kristinn Þorsteinsson slökkviliðsstjóri Borgarbyggðar sendi byggðarráði Borgarbyggðar nýverið erindi vegna bygginganna þar sem hann lýsir yfir áhyggjum sínum yfir framkvæmdunum. Hann telur Slökkvilið Borgarbyggðar ekki í stakk búið búnaðarlega til þess að bjarga fólki af svölum íbúðablokkarinnar ef eldur kæmi upp í húsinu. Fólk gæti lokast inni í íbúðum sökum elds og reyks. Í húsinu mun aðeins vera eitt stiga- og lyftuhús og bannað er að nota lyftur ef eldur verður laus í húsinu.

Í bréfinu segir Bjarni: „Undirritaður vill því alvarlega árétta það við ykkur alla kjörna fulltrúa, að hann sem slökkviliðsstjóri Slökkviliðs Borgarbyggðar getur ekki tekið ábyrgð á því að bjarga fólki úr húsum þessum ef eldur yrði laus í þeim þar sem slökkviliðið er vanbúið tækjum í dag og hefur ekki yfir þeim lyftibúnaði að ráða sem nauðsynlegur er til björgunar af svölum háhýsa og til að sinna slökkvistarfi utanfrá í háhýsum.“

Bjarni bendir byggðarráði í bréfi sínu á tvo kosti til þess að greiða úr þeim vanda. Annars vegar er það að auka kröfur um öryggismál á svæðinu. Hins vegar að sveitarfélagið festi kaup á stiga-körfubíl fyrir slökkviliðið. Bjarni bendir enn fremur á það að ef sveitarfélagið ákveður að kaupa stiga-körfubíl þurfi einnig að endurskoða húsnæðismál fyrir slökkviliðið þar sem núverandi húsnæði við Sólbakka er nú þegar of lítið.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Gleðilegt sumar!

Skessuhorn óskar lesendum sínum, ungum sem gömlum, til sjávar og sveita, gleðilegs sumars.