Lilja Rafney vill leiða lista VG áfram

Lilja Rafney Magnúsdóttir þingmaður hefur gefið kost á sér til að leiða áfram lista Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi í forvali VG fyrir Alþingiskosningar í haust. „Þau sjö ár sem ég hef setið á Alþingi hafa verið miklir og lærdómsríkir umbrotatímar í lífi þjóðarinnar. Sú reynsla sem ég hef hlotið á þessum tíma hefur nýst mér vel og mun ég nota hana áfram eins og hingað til á uppbyggilegan hátt í baráttunni fyrir réttlátara samfélagi fyrir alla,“ segir hún. „Ég þekki hinn pólitíska slag og er reiðubúin til að berjast áfram með Vinstri grænum hinni góðu baráttu fyrir jöfnuði og velmegun um land allt.“

Lilja Rafney er fædd á Stað í Súgandafirði og er búsett á Suðureyri. Hún tók sæti á Alþingi fyrir VG í Norðvesturkjördæmi árið 2009. „Ég hef alltaf tekið og mun alltaf taka slaginn fyrir þá sem minna mega sín í samfélaginu. Barátta mín á Alþingi hefur einkum snúist um að koma fram breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu, stuðla að innviðauppbyggingu á landsbyggðinni, öflugum landbúnaði, jafnrétti til náms, náttúruvernd og endurreisn heilbrigðis- og velferðarkerfisins þar sem hagsmunir aldraðra, öryrkja og unga fólksins eru tryggðir. Það er vissulega mikilvægt að hafa góðar hugsjónir en það er ekki síður mikilvægt að fylgja þeim eftir og tala fyrir þeim við hvert tækifæri. Aukinn jöfnuður er lykilatriði í þeim breytingum sem ég vil gera á samfélagi okkar. Við eigum öll að hafa sömu tækifæri til lífs og þroska, við berum öll ábyrgð og skyldur gagnvart samfélagi okkar og okkur ber að hafna sérhagsmunagæslu og spillingu afdráttarlaust,“ segir hún.

Líkar þetta

Fleiri fréttir