Ingibjörg og Hlynur útnefnd Íbúar ársins

Á byggðahátíðinni Reykhóladögum, sem haldnir voru seint í júlímánuði, var tekið upp á þeirri nýbreytni að velja sveitunga ársins. Óskuðu aðstandendur hátíðarinnar eftir tilnefningum og niðurstaðan varð sú að Ingibjörg Kristjánsdóttir hjúkrunarfræðingur og Hlynur Þór Magnússon sagnfræðingur voru bæði sæmd nafnbótinni „Íbúar ársins 2016“. Fengu þau viðurkenningu og bikara nafnbótinni til staðfestingar.

Árið 1973, þegar Ingibjörg var á 23 aldursári, hóf hún störf sem héraðshjúkrunarkona, eins og það hét þá og starfaði við heilsugæslu í sveitinni í áratugi. Hún hefur einnig verið við búskap í Garpsdal í Gilsfirði ásamt Hafliða Ólafssyni eiginmanni sínum, allt þar til þau brugðu búi fyrir skömmu síðan og fluttust í Króksfjarðarnes. Þegar upp kom sú hugmynd að byggja dvalarheimili á Reykhólum, sem tekið var í notkun 1988, var hún með í ráðum frá upphafi. Gegndi hún síðar starfi forstöðumanns dvalarheimilisins Barmahlíðar á Reykhólum, ásamt því að sinna heilsugæslu. Þá var hún í nokkur ár hjúkrunarforstjóri Heilsugæslustöðvar Búðardals og síðan hjúkrunarforstjóri Silfurtúns í Búðardal.

 

Hlynur Þór Magnússon fluttist á Reykhóla frá Ísafirði árið 2006 eftir að 20 ára dvöl á Ísafirði þar sem hann hafði kennt við menntaskólann, einkum íslensku, samhliða blaðamennsku og ritstjórn. Hlynur hafði áður kennt við Reykhólaskóla. Vorið 2008 tók hann síðan að sér umsjón Reykhólavefsins, vef sveitarfélagsins. Tók hann strax þann pól í hæðina að efnistök yrðu víðari en almennt er ætlast til af vefum sveitarfélaga. Auk efnis er varða stjórnsýslu Reykhólahrepps, eins og tilkynningar, fundargerðir og önnur opinber gögn sem birtast skulu á slíkum vef, hefur Hlynur ritað á Reykhólavefinn almennar fréttir úr héraði og tekið við aðsendu efni og fróðleik.

Líkar þetta

Fleiri fréttir