Ólafur Adolfsson

Segja mikilvægt að lögregla hafi sólarhringsvakt í sjö þúsund manna bæjarfélagi

Bæjaryfirvöld á Akranesi hafa gefið það út að þau líta stöðu lögreglunnar á Vesturlandi alvarlegum augum. Í sumar þurfti lögreglan á Vesturlandi að skera niður vegna fjárskorts og hallareksturs. Hluti af niðurskurðinum felist í því að lögreglumenn á Akranesi og í Borgarnesi eigi nú að skiptast á um að hafa eftirlit með byggðarlögunum tveimur að næturlagi en áður höfðu verið sólarhringsvaktir á báðum stöðum. Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóri á Vesturlandi sagði í samtali við Skessuhorn í síðustu viku að embætti hans sitji uppi með hallarekstur sem vinna þurfi á. Segir hann að meðal annars verði brugðist við með því að ráða ekki í störf sem losna, en ekki verði um beinar uppsagnir að ræða. Þetta muni m.a. leiða til þess að sólarhringsvaktir verði ekki í bæjarfélögunum í vetur þar sem í fyrirhugað er nýtt vaktakerfi sem gerir ráð fyrir færri mönnum á svæðinu.

Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri á Akranesi segir að svör sem ráðamenn hafi gefið Akraneskaupstað við sameiningu lögregluembætta árið 2014 hafi falið í sér að við sameiningu myndi löggæsla á Akranesi styrkjast, m.a. með tilkomu sólarhringsvakta sem höfðu þá legið niðri um tíma. Hún segir að nú sé ljóst að þessi fyrirheit muni ekki ganga eftir. Yfirvöld á Akranesi líta því málið alvarlegum augum og var Lögreglustjórinn á Vesturlandi boðaður á síðasta bæjarráðsfund á Akranesi. „Við fórum yfir stöðu mála og lýstum áhyggjum okkar á naumum fjárveitingum til löggæslu á svæðinu. Ef við lítum bara á Akranes þá er þetta 7000 manna bæjarfélag og því væri mjög eðlilegt að hér séu sólarhringsvaktir hjá lögreglunni. Við teljum að það sé afar mikilvægt,“ segir Ólafur Adolfsson formaður bæjarráðs í samtali við Skessuhorn.

Á fundi bæjarráðs var óskað eftir yfirliti um þróun á starfsemi lögreglunnar á Akranesi, svo sem fjölda stöðugilda, vaktaskipulag og fjölda mála á tímabilinu 2013-2016.

Líkar þetta

Fleiri fréttir