Sprengjan sem fannst við Kárastaðaflugvöll í Borgarnesi um verslunarmannahelgina er bresk og úr síðari heimsstyrjöldinni. Ljósm. Lögreglan á Vesturlandi.

Sprengja fannst í Borgarnesi

Bresk sprengivörpusprengja frá því í seinni heimsstyrjöld fannst skammt frá Kárastaðaflugvelli í Borgarnesi um verslunarmannahelgina. Félagar í Björgunarsveitinni Brák rákust á sprengjuna þar sem þeir voru að undirbúa flugeldasýningu fyrir gesti Unglingalandsmóts UMFÍ.

Lögregla kallaði til sérfræðinga úr sprengjusveit Landhelgisgæslunnar sem að mættu á svæðið og gerðu sprengjuna óvirka.

Talið er að sprengjan hafi verið neðanjarðar árum saman en að hún hafi smátt og smátt komið upp á yfirborðið í frostlyftingu.

Lögreglan á Vesturlandi vill árétta að ef fólk finnur grunsamlega hluti á víðavangi, hvort sem það er í fjöru, eða á fjöllum, sem það telur að geti verið einhvers konar sprengibúnaður þá er öruggast að hreyfa ekkert við þeim og halda sig fjarri. Taka þarf niður staðsetningu, merkja staðinn og hafa síðan samband við 112 eða viðkomandi lögreglu sem að kallar síðan til rétta viðbragðsaðila hverju sinni.

Líkar þetta

Fleiri fréttir