Mótmæla skerðingu á strandveiðikvóta

Á fundi bæjarráðs Akraneskaupstaðar fimmtudaginn 28. júlí síðastliðinn var lagt fram bréf frá Sæljóni, félagi smábátaeigenda á Akranesi. Í bréfinu mótmæla smábátaeigendur í bænum harðlega 200 tonna skerðingu á strandveiðiheimilda á svæði D, sem nær frá Höfn að Borgarbyggð.

„Með útgáfu reglugerðar nr. 337 þann 26. apríl sl. ákveður sjávarútvegsráðherra að auka heildarkvóta fyrir strandveiðar á fiskveiðiárinu 2015-2016 um 400 tonn og jafnframt á sama tíma að skerða veiðiheimildir á strandveiðisvæði D um 200 tonn,“ segir í bréfi frá Sæljóni. Félagar í Sæljóni funduðu með sjávarútvegsráðherra sem varði þessa ákvörðun með þeim rökum að svæði D hefði ekki náð að veiða viðmiðunarkvóta fiskveiðiársins 2014/2015. Þá hefðu færri dagar komið í hlut annarra svæða og tilgreindi hann sérstaklega svæða A, sem nær frá Eyja- og Miklaholtshreppi til Súðavíkurhrepps. Smábátaeigendur á Akranesi segja hins vegar að slæmar gæftir hafi verið í maí og júní á síðasta ári og aflabrögð eftir því. Til samanburðar benda þeir á að landanir í júní 2015 hafi verið 412 en 850 í júní 2016. „Kvótinn kláraðist tveimur dögum á eftir svæði A í maí og júní og tveimur dögum fyrr í júlí. „Ljóst er að forsendur fyrir ákvarðanatöku sjávarútvegsráðherra standast engan veginn,“ segir í bréfi frá Sæljóni sem krefjast þess að þau 200 tonn sem færð voru af svæðinu yfir á önnur svæði verði skilað á svæði D.

Bæjarráð Akraneskaupstaðar tók á fundi sínum undir gagnrýni félags smábátaeigenda. „Strandveiðar hafa undanfarin sjö sumur verið jákvæð viðbót í útgerð á Íslandi og auðgað starfsemi fjölda hafna um land allt. Það á einnig við um Akraneshöfn og starfsemi Fiskmarkaðs Íslands á Akranesi. Bæjarráð Akraness lýsir því yfir miklum vonbrigðum með þá ákvörðun sjávarútvegsráðherra að minnka aflamagn á strandveiðisvæði D, frá sveitarfélaginu Hornafirði að Borgarbyggð, um 200 tonn fyrirvaralaust. Slík vinnubrögð eru með öllu óásættanleg og er þess krafist að ráðherra endurskoði reglugerð um strandveiði fyrir fiskveiðiárið 2015 til 2016 og auki veiðiheimildir á strandveiðisvæði D til fyrra horfs,“ segir í bókun bæjarráðs.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Gleðilegt sumar!

Skessuhorn óskar lesendum sínum, ungum sem gömlum, til sjávar og sveita, gleðilegs sumars.