Strandveiðibátar landa í Grundarfjarðarhöfn. Ljósm. úr safni.

Lokamánuður strandveiða hafinn

Fjórða og síðasta lota strandveiðitímabilsins hófst 2. ágúst síðastliðinn og mega standa til loka mánaðarins, að því gefnu að kvótinn klárist ekki fyrir þann tíma.

Veiðar í júlí gengu vel. Alls veiddu strandveiðibátar 2.385 tonn hringinn í kringum landið í mánuðinum, að því er kemur fram á heimasíðu Landsambands smábátaeigenda. Meðalafli var sá hæsti frá upphafi eða 647 kíló á hvern bát.

Um mánaðamótin síðustu nam heildarafli maí til júlí 7.563 tonnum. Það þýðir að eftir er að veiða 1.437 tonn af 9.000 tonna heildarkvóta af óslægðum botnfiski í ágúst.

Á strandveiðum eru nú 657 bátar og er það 29 bátum fleira en á síðasta ári. Þar með hefur árlegri fækkun báta á strandveiðum frá árinu 2012 verið snúið við. Flestir eru bátarnir á svæði A, eða 240 talsins en fæstir á svæði D; 124 bátar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir