Hér má sjá grunnskólanema af Vesturlandi etja kappi í stærðfræði. Ljósm. úr safni.

Kennurum án kennsluréttinda fjölgar

Kennarar án kennsluréttinda voru 5,4% starfsfólks við kennslu í grunnskólum landsins haustið 2015. Frá þessu er greint á vef Hagstofunnar. Lægst var hlutfall kennara án kennsluréttinda í Reykjavík, 2,4% og 3,9% á höfuðborgarsvæðinu utan Reykjavíkur. Hlutfallið er hæst á Vestfjörðum, 16,9% og Suðurnesjum, 14,5%. Á Vesturlandi lækkaði hlutfall kennara án kennsluréttinda frá árinu á undan.

Körlum heldur áfram að fækka í hópi grunnskólakennara. Frá árinu 1998 hefur hlutfall þeirra lækkað úr 26 prósentum niður í 18,1 prósent. Haustið 2015 voru 112 konur starfandi skólastjórar í grunnskólum landsins en voru 68 árið 1998. Á sama tíma hefur körlum fækkað í skólastjórastéttinni úr 125 í 61.

Meðalaldur grunnskólakennara heldur áfram að hækka, eins og verið hefur frá árinu 2000. Þá var meðalaldur kennara 42,2 ár en var 46,6 ár haustið 2015. Meðalaldur kennara með kennsluréttindi hefur á öllu tímabilinu verið töluvert hærri en þeirra sem kenna án réttinda. Haustið 2015 var meðalaldur kennara með kennsluréttindi 47 ár en 39 ár hjá þeim sem ekki höfðu kennsluréttindi.

 

Nemendum fjölgar

Á sama tíma hafa nemendur í grunnskólum ekki verið fleiri síðan kennsla hófst á haustmánuðum 2007. Í fyrra voru þeir 43.760 og fjölgaði um 624 nemendur frá árinu á undan. Síðasta haust stunduðu auk þess 94 nemendur nám í fimm ára bekk, en það eru 20 færri en haustið 2014.

Grunnskólanemendum með erlent tungumál að móðurmáli hefur sömuleiðis fjölgað ár frá ári frá því Hagstofan hóf að safna þeim upplýsingum. Síðasta haust höfðu 3.543 nemendur annað tungumál en íslensku að móðurmáli, eða 8,1% nemenda sem er fjölgun um 0,6 prósentustig frá haustinu 2014. Algengast erlendra móðurmála var pólska, 1.282 nemendur, þá filippeysk mál, 336 nemendur og síðan enska, 240 nemendur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Gleðilegt sumar!

Skessuhorn óskar lesendum sínum, ungum sem gömlum, til sjávar og sveita, gleðilegs sumars.