Rúnar Gíslason.

Tvítugur og stefnir á oddvitasæti

Hinn tvítugi Rúnar Gíslason sækist eftir oddvitasæti Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í Norðvesturkjördæmi fyrir komandi Alþingiskosningar. Sem lið í að koma sér á framfæri fyrir forval VG boðar hann til opins fundar í Landnámssetrinu í Borgarnesi fimmtudaginn 4. ágúst kl. 20:00. „Mig langar að vera meira en bara á bakvið lyklaborðið og þess vegna vil ég boða til opins fundar með mér, eins sjálfhverft og það kann að hljóma. Sá fundur verður 4. ágúst nk. á Landnámssetrinu kl. 20:00. Þar gefst áhugasömum tækifæri á að kynna sér framboð mitt en betur og spyrja mig spurninga. Mér finnst ég þurfa að gera þetta þar sem ég er lítið þekktur og er í raun ennþá bara óskrifað blað hjá mörgum. Allt flokksstarf er í dvala þessa stundina og fannst mér því kjörið tækifæri að boða til fundarins núna“ segir Rúnar.

Það er ekki á hverjum degi sem tvítugur einstaklingur býður sig fram til oddvitasætis en Rúnar virðist óhræddur. „Ég hef brennandi áhuga á þjóðfélagsmálum og mikinn áhuga á þessu starfi. Það er svoleiðis að það eru aðeins þeir sem þora sem skora og maður hefur engu að tapa þegar maður er svona ungur svo það var í raun aldrei vafi hjá mér að bjóða mig fram. Mér finnst einnig að á þingið eigi að vera þverskurður þjóðarinnar og þar á ungt fólk líka heima. Ég er vonandi að sýna fordæmi sem aðrir ungir einstaklingar geta litið til. Það vantar oft hjá ungu fólki að þora að taka slaginn. Vonandi finnst einhverjum að ég geti verið verðugur fulltrúi unga fólksins. Ef ekki þá nær það ekki lengra,” segir Rúnar að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir