„Það er eitthvað ávanabindandi við þennan stað“

Í vor tók Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir við stöðu hótelstýru á Hótel Flatey á Breiðafirði. Jóhanna segir að sumarið hafi gengið vel. „Það hefur gengið ljómandi vel í sumar og veðrið verið frábært, hlutirnir fara vanalega rólega af stað í júní en það er allt komið á flug núna. Við erum ekki stórt hótel svo það er enginn massatúrismi hér. Það er mikil kyrrð yfir öllu hérna og sama má segja um fólkið. Hér koma bæði Íslendingar og útlendingar. Oft er þetta fólk sem hefur miknn áhuga á náttúrunni og fuglunum og njóta þess að vera á svæðinu,“ segir Jóhanna.

 

Unnið á Hótel Flatey í tíu ár

Jóhanna hefur starfað á Hótel Flatey síðustu tíu sumur. „Ég fékk símhringingu frá vinkonu minni fyrir tíu árum síðar. Hún þekkti til á svæðinu og sagði að ég gæti fengið vinnu á hótelinu. Ég stökk á tækifærið og hef verið hér öll sumur síðan. Ég ólst upp í Vík í Mýrdal og get því ekki hugsað mér að eyða sumrinu á Höfðuborðgarsvæðinu og leita því frekar út á land og ég heillast af Flatey það er eitthvað ávanabindandi við þennan stað. Nálægðin við hafið, fuglana og náttúruna er alveg einstök, maður verður einhvern veginn hluti af náttúrunni.“

Hótel Flatey er aðeins opið yfir sumarið og því starfar Jóhanna við annað á veturna. Hún útskrifaðist sem leikari árið 2005 frá Listaháskóla Íslands og hefur starfað bæði við leikstjórn og leiklist, bæði á sviði og í sjónvarpi. „Ég hef starfað við ýmislegt á veturna í gegnum árin, í vetur mun ég leika í leikritinu Helgi magri sem Leikfélag Akureyrar er að setja upp,“ segir Jóhanna. Aðspurð að því hvort hún sjái fyrir sér að starfa sem hótelstýra í náinni framtíð segist Jóhanna vonast til þess. „Vonandi get ég starfað áfram hér í Flatey en það er aldrei að vita hvað gerist og ekki hægt að slá neinu föstu með það,“ segir Jóhanna að endingu.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir