Varmaland í Borgarfirði.

Lava-hótel Varmaland kaupir Húsmæðraskólann

Í fundagerð frá fundi byggðarráðs Borgarbyggðar í liðinni viku var lögð fram yfirlýsing um aðalskipti að kaupsamningi um húsnæðið sem áður hýsti Húsmæðraskólann á Varmalandi. Félagið Lava-Hótel Varmaland ehf. verður kaupandi að fasteigninni.
Eins og fram kom í Skessuhorni í lok síðasta árs var það samþykkt á fundi byggðaráðs 30. október 2015 að ganga til samninga við Iceland incoming ferðir ehf. um kaup á húsnæðinu. Átti afhending eignarinnar að fara fram um síðustu áramót. Á vefsíðu Ríkisskattstjóra kemur fram að Iceland incoming ferðir ehf. hefur sama póstfang og Lava-Hótel Varmaland, að Tunguási 2 og Garðabæ. Lögheimili fyrirtækjanna er þó ekki það sama.
Ekki náðist í forsvarsmenn Lava-Hótel Varmaland við vinnslu fréttarinnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir