Guðni var settur í embætti í gær

Guðni Th. Jóhannesson var settur í embætti forseta Íslands við hátíðlega athöfn í Alþingishúsinu í gær. Mikill fjöldi fólks lagði leið sína á Austurvöll og hyllti Guðna og Elizu Read, eiginkonu hans, af svölum Alþingishússins.

Frelsi og fjölbreytni þjóðfélagsins skipuðu stóran sess í innsetingarræðu forsetans. Málefni innflytjenda vógu nokkuð þungt í máli Guðna, sem setti innflytjendaumræðu í sögulegt samhengi. „Gleymum ekki fjölmenningu landnámsaldar og þeim nánu tengslum við útlönd sem lögðu grunn að afrekum á sviði bókmennta og verklegum framförum síðar meir,“ sagði hann. „Við játum ólík trúarbrögð, stöndum sum utan trúfleaga, við erum ólík á hörund, við getum heitið erlendum eiginnöfnum, þúsundir íbúa þessa lands eiga sér erlendan uppruna og tala litla eða enga íslensku en láta samt gott af sér leiða hér. Við lifum tíma fjölbreytni og megi þeir halda áfram þannig að hvera og einn geti rækt sín sérkenni, látið eigin drauma rætast en fundið skjól og styrk í samfélagi manna og réttarríki hér á landi,“ sagði Guðni.

 

Forseti stuðli að einingu

Samfélagsumræðan var Guðna einnig hugleikin í innsetningarræðunni og sagði hann að forseta bæri að stuðla að einingu og bera virðingu fyrir skoðunum annarra. „Eitt gildir þó um allar þjóðir, þá íslensku sem aðrar: Það sem sameinar þær verður að vega þyngra en það sem sundrar og hér hefur þjóðhöfðinginn hlutverki að gegna. Forseta ber að stuðla að einingu, bera virðingu fyrir skoðunum annarra, varast að setja sig á háan hest,“ sagði hann. Þó væri ekki þar með sagt að hann mætti ekkert hann mæla á forsetastóli nema það sem full samastaða ríkti um, enda væri slíkt ómögulegt. Forseti sagði að ólík sjónarmið yrðu að heyrast og að málefnalegur ágreiningur væri til vitnis um þroskað samfélag. Þá umræðu setti hann í samhengi við kosningar til Alþingis og kom skýrt fram í máli hans að forseti gerir ráð fyrir því að kosið verði í haust. „Ég vona einmitt að við stöndumst það próf þegar við kjósum nýtt þing í haust. Í kosningum er tekist á um ólíkar stefnur og markmið en að þeim loknum verða þingmenn að vinna saman, finna lausnir, sýna sanngirni og beita þeim aðferðum sem auka virðingu þeirra sjálfra og hinnar aldagömlu stofnunar, Alþingis.“

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Gleðilegt sumar!

Skessuhorn óskar lesendum sínum, ungum sem gömlum, til sjávar og sveita, gleðilegs sumars.