Bjarni Þór Bjarnason eiginmaður Ástu málaði um 40 fallegar vatnslitamyndir í tilefni sextugsafmælis Ástu.

Telpa í 60 ár

Ásta Alfreðsdóttir hélt upp á sextugsafmæli sitt laugardaginn 9. júlí með því að opna myndlistasýninguna „Telpa í 60 ár“ í Galleríi Bjarna Þórs á Akranesi, en hún er svo lukkuleg að vera gift honum Bjarna. „Ég var ekki alveg viss hvernig ég vildi halda upp á þessi tímamót en vissi að ég vildi gera það á eftirminnilegan hátt. Mig langaði ekki að fara ein með Bjarna á Hótel Rangá eða til útlanda og ekki heldur að verja deginum eingöngu með börnum og barnabörnum, ég vildi gera eitthvað meira. Ég fékk nokkrar hugmyndir en fannst þó engin passa við það sem ég var að leita að. Svo hugsaði ég með mér að ég ætti besta listamanninn á Íslandi og hann er mjög góður í vatnslitamyndum,“ segir Ásta og hlær. „Eftir að sú hugmynd kom var eins og það kæmi eitthvað jafnvægi á mig og ég vissi að þetta var það sem ég vildi gera. Ég bar hugmyndina undir Bjarna sem tók mjög vel í hana,“ segir Ásta.

Upphaflega átti sýningin að vera myndir af konum að störfum en ekki var hlaupið að því að finna slíkar ljósmyndir til að mála eftir. „Við fórum að glugga í okkar myndasafni og sáum strax að þar voru margar fallegar myndir. Úr varð að Bjarni málaði um 40 vatnslitamyndir af okkar fjölskyldu og eru þær allar til sýnis auk jólakorta sem Bjarni hefur málað og gefið mér í gegn um tíðina,“ segir Ásta. Dagurinn heppnaðist einstaklega vel og að sögn Ástu var þetta besti afmælisdagur sem hún hefur átt. Komu 115 manns í veisluna auk þess sem erlendir ferðamenn af fimm þjóðernum stoppuðu við til að skoða galleríið. „Það var svo mikil gleði og allir svo yndislegir. Sem dæmi vildi ég bjóða upp á rækjusnittur í veislunni en gat ekki fengið þær keyptar á Akranesi. Ég leitaði til nágranna minna með hvar ég gæti fengið svoleiðis og þá buðust þeir til að sjá um þetta fyrir mig. Bjarni kom mér svo á óvart með hljómsveit sem kom og spilaði í veislunni. Það var því dansað, borðað og haft gaman þennan dag með okkar allra nánasta fólki. Bjarni gerði þetta allt fyrir mig með mikilli gleði og ég upplifði mig svo elskaða þennan dag,“ segir Ásta að lokum.
Sýningin „Telpa í 60 ár“ verður opin í Galleríi Bjarna Þórs út ágústmánuð.

Líkar þetta

Fleiri fréttir