Nýr lögregluþjónn í Dölum

Níels Hermannsson tók við starfi lögregluþjóns í Dölunum 1. febrúar síðastliðinn en hann hefur starfað sem lögregluþjónn frá árinu 2003. „Ég er menntaður húsamálari og vann lengi við það. Ég lauk námi við lögregluskólann árið 2003 en hafði þá verið búinn að vinna sem héraðslögregla í þrjú ár,“ segir Níels í samtali við Skessuhorn. Níels er fæddur á Ísafirði en fluttist snemma austur í Eiða svo sveitin er honum ekki ókunn. Sem lögregluþjónn hefur hann lengst af starfað í keflavík en nú síðast á Þórshöfn. „Mér fannst þetta spennandi verkefni og ég er vanur svona litlu samfélagi og vissi að mestu út í hvað ég væri að fara,“ segir Níels um þá ákvörðun að flytja í Búðardal. „Ég þekkti þó ekkert til í Búðardal og hafði aldrei komið inn í bæinn, bara keyrt í gegn, áður en ég flutti.“

Aðspurður hvort það væri ekki mikill munur á því að starfa sem lögregluþjónn í Búðardal og Keflavík segir Níels það ekki vera. „Vissulega er munur en hann er ekki svo mikill. Þetta er sama vinnan og alveg sömu mál sem maður er að vinna að. Helsti munurinn er að hér eru færri mál og ég fæ minni aðstoð. Ég er bara einn hér í Dölunum og það getur verið stíft en þetta er lítið samfélag og það hefur bara verið mjög rólegt frá því ég kom, mun minna að gera en ég hafði búist við. Þetta eru mest umferðamál en Dalamenn eru almennt bara mjög rólegir,“ segir Níels kátur. Hann segir einnig að þrátt fyrir mikla aukningu ferðamanna um svæðið hafi farið lítið fyrir þeim í hans störfum í sumar. „Það var meira um óhöpp hjá ferðamönnunum í vetur en núna hefur þetta sloppið að mestu.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir