Förum varlega í umferðinni um Verslunarmannahelgina

Margir verða á faraldsfæti þessa stærstu ferðahelgi ársins. Til að mynda eru bæjarhátíðir víða um land og umferðin verður þung. Gott er að hafa eitt og annað í huga þegar ferðast er um landið í mikilli umferð.

Í tilkynningu frá VÍS er minnt á mikilvægi þess, við ofangreindar aðstæður, að stíga létt á bensíngjöfina. Halda sig innan leyfilegs hámarkshraða og við þann umferðarhraða sem ríkir hverju sinni. „Láta framúrakstur bíða betri tíma ef umferð er mikil enda ávinningur af honum lítill við þessar aðstæður. Í mesta lagi nokkrar bíllengdir en áhættan þeim mun meiri,“ segir í tilkynningunni.

Þá eru vegfarendur minntir á að nota bílbeltin, að skorða farangur og hafa rúður hreinar og nota sólgleraugu í bjartviðri. „Bíllinn þarf auðvitað að vera í lagi, á góðum dekkjum með réttum loftþrýstingi og ökumaður úthvíldur.“

Um neyslu áfengis og annarra vímuefna segir etirfarandi: „Ef áfengi eða önnur vímuefni hafa verið höfð um hönd þarf náttúrlega ekki að minna á að eftir neyslu þeirra má ekki keyra. Margir flaska á því og setjast of fljótt undir stýri. Mjög mismunandi er milli einstaklinga hversu lengi líkaminn er að brjóta vímuefnin niður. Þumalputtareglan er að líkaminn sé klukkustund að eyða áhrifum af hverjum einföldum eftir að drykkju er hætt. Það getur því tekið allt að 12 til 18 tíma að brjóta niður sex stóra bjóra, áður en óhætt er að aka af stað.“

Mælist vínandamagn 0,5 til 0,6 prómill í blóði, sem er lægsta gildi sem sektað er fyrir, þá nemur sektin 70 þús. krónum. Aukinheldur er ökumaður sviptur ökuleyfi í tvo mánuði. „Það er þó lítilræði í samanburði við líkamstjón eða jafnvel banaslys sem viðkomandi getur valdið,“ segir í tilkynnigunni, en ölvaðir ökumenn eiga þátt í þremur af hverjum tíu banaslysum í umferðinni hér á landi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir