Hér eru þeir Guðmundur Sigurðsson, Davíð Pétursson og Geir Waage við afhendingu gjafarinnar.

Reykholts- og Hvanneyrarkirkju færð gjöf

Miðvikudaginn 20. júlí færði Davíð Pétursson á Grund í Skorradal, Reykholtskirkju og Hvanneyrarkirkju sitthvorn „moldunarfontinn.“ Moldunarfontur er nýyrði sem Davíð notaði yfir það ílát sem notað er við moldun í jarðarförum. Gjöfin var færð kirkjunum í minningu eiginkonu Davíðs, Jóhönnu Guðjónsdóttur, sem lést í fyrra. Afhendingin fór fram á afmælisdegi hennar en Davíð ásamt börnum sínum og bræðrum Jóhönnu standa að gjöfinni. Ástæðu gjafarinnar segir Davíð að sér hafi fundist þetta þurfa í kirkjunnar.

Hugmynd í konfektkassa
Fonturinn er smíðaður af syni Davíðs, Jens Davíðssyni, úr viðartegundinni Wenge. Hann er áttstrendur, krossinn myndar tólf hliðar og vísað er til skírnarinnar og heilagrar þrenningar í botni skálarinnar. Moldunarekan er unnin af Gissuri Árnasyni frá Hallormsstað. Áletrunin á fontinum er skorin út af listagullsmiðnum Ívari Björnssyni í Reykjavík.
Jens Davíðsson, hönnuður fontsins, segir að lítið sé um staðlaðar kröfur þegar slíkur fontur er smíðaður. „Þegar ég byrjaði að smíða leitaði ég mér að upplýsingum um hvort það væru einhverjar kröfur. Það var lítið um það nema að hann yrði helst að áttstrendur. Ég velti lengi fyrir mér hvernig skálin sem moldin færi í ætti að vera. Á vinnustaðnum sem ég vinn hjá barst okkur konfektkassi. Þegar ég var að meðhöndla hann datt hann á gólfið og opnaðist líkt og kross. Ég sá að þarna var lausnin komin og ég smíðaði skálina líkt og konfektkassinn opnaðist,“ segir Jens og brosir.

 

Það voru þeir Geir Waage, sóknarprestur í Reykholti, og Guðmundur Sigurðsson, formaður sóknarnefndar Hvanneyrarkirkju sem tóku á móti fontunum. Þeir voru glaðir með gjöfina en aldrei hefur verið til slíkur gripur fyrir moldun í Hvanneyrarkirkju. „Þú getur rétt ímyndað þér,“ sagði Geir Waage aðspurður hvort hann væri ánægður með gjöfina. „Þetta eru mjög fagrir gripir og mikil úrbót á báðum stöðum. Í Reykholti var aðeins til einfaldur fontur og stakk hann í stúf við annað sem er í kirkjunni. Ég er því mjög ánægður með þennan grip,“ segir Geir.

Líkar þetta

Fleiri fréttir